Reykjanesbær býður ódýrustu skólamáltíðirnar
Verð skólamáltíða í grunnskólum hækkar í flestum stærri sveitarfélögum landsins og verðskrá fyrir frístundavistun og heilsdagsskóla hækkar um 20% í Reykjavík. Það getur kostað hartnær 20 þúsund krónur á mánuði að eiga eitt barn á grunnskólaaldri í Reykjavík. Frá þessu var greint í frétt Sjónvarpsins í gær en samkvæmt óformlegri könnun sem fréttastofa Sjónvarpsins gerði nýlega er skólamaturinn ódýrastur í Reykjanesbæ.
Það þarf að huga að fleiru en skólatöskum og ritföngum þegar skólastarf hefst eftir sumarfrí, því eitthvað þurfa börnin líka að borða í skólanum. Fréttastofan gerði óformlega könnun á verði skólamáltíða í stærstu sveitarfélögum landsins. Í ljós kemur að verð hækkar víðast hvar frá því í fyrra. Hádegisverðurinn er dýrastur í skólum í Garðabæ þar sem hver máltíð kostar 428 krónur, eins og á síðasta ári. Mesta hækkunin er í Hafnarfirði eða 17% og kostar hádegismaturinn þar nú 350 krónur.
Reykjanesbær býður hins vegar upp á ódýrustu skólamáltíðirnar. Hver máltíð kostar þar 266 krónur og hefur hækkað um 6% frá því í fyrra. Algengt verð fyrir klukkustund í frístundavistun er á bilinu 250 til 300 krónur. Í Reykjavík hefur gjaldskrá frístundaheimila hækkað um 20% á þessu ári og er mánaðargjald fyrir fulla frístundavist nú um 10 þúsund krónur. En við þá upphæð bætist gjald fyrir síðdegishressingu sem er um 150 krónur á dag. Þess ber að geta að veittur er 75% systkinaafsláttur fyrir annað barn og ekki þarf að greiða fyrir þriðja barn.