Reykjanesbær á peningalegar eignir á móti öllum skuldum við banka og sjóði
Helstu peningalegar eignir Reykjanesbæjar, sem eru utan allra eigna sem tengjast lögbundnum verkefnum s.s. gatnakerfi, fráveitu, skólum og húsnæði, eru að virði vel yfir 19 milljarða króna. Langtíma- og skammtímaskuldir bæjarins og fyrirtækja hans við banka og lánastofnanir eru lægri en þetta eða 17 milljarðar kr.
Þetta kom fram í máli Árna Sigfússonar á íbúafundi með bæjarstjóra á Ásbú sl. fimmtudag. Árni ræddi um það sem hann sagði ósanngjarna umræðu um skuldir Reykjanesbæjar þar sem slengt væri saman öllum skuldbindingum þ.á.m. framreiknaðri leigu á húsnæði til næstu 25 ára og skuldum HS veitna og rætt um háa skuldastöðu í fimm dálka fyrrisögnum dagblaða. Hvergi væri rætt um eignir eða eðli eigna. Hvergi hafi hann séð skuldir Orkuveitu Reykjavíkur tengdar við Reykjavíkurborg með sama hætti, eða fyrirsagnir sem hefðu þá tilkynnt um mörg hundruð milljarða skuldir borgarinnar. Árni sagði á fundinum nauðsynlegt að skoða hlutina í samhengi og þá kæmi önnur staða í ljós, sem stöðugt fleiri væru að viðurkenna.
Árni sagði að mikilvægast í því væri að skoða helstu eignir sem eru algjörlega utan við lögskipað hlutverk sveitarfélaga og unnt væri að selja og væru seljanlegar án þess að hafa áhrif á daglegan og lögbundinn rekstur sveitarfélaganna. Hann sagði hins vegar að þar með væri ekki sagt að það ætti að selja, heldur fyrst og fremst mikilvægt að stilla þessu upp svo réttur samanburður fáist.
„Þá kemur í ljós að Reykjanesbær er líklega það sveitarfélag sem á hlutfallslega langmestar seljanlegar eignir umfram skyldueignir. Þær nema vel yfir 19 milljarða króna,“ sagði Árni.
Hann bætti við að í þeirri tölu væri þó er ekki verið að meta Helguvíkurhöfn eða allar lóðirnar í Helguvík til fjár.
„Þó höfum við þá staðreynd á borðinu að Kísilverkið greiddi okkur yfir hálfan milljarð fyrir lóðina sem það nýtir þar. Sá hluti er um 1/10 af skipulögðum lóðum í Helguvík. Það sýnir að sú mikla fjárfesting sem við höfum verið gagnrýnd fyrir getur skilað sér margfalt til baka og orðið sú lyftistöng fyrir samfélagið sem við höfum stefnt að. En til þess þarf þá að kjósa atvinnu,“ sagði Árni Sigfússon á íbúafundinum.
Meðfylgjandi myndir eru frá íbúafundinum á Ásbrú fyrir helgi. VF-myndir: Hilmar Bragi