Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Reykjanesbær á krossgötum
Frá bæjarstjórnarfundi í Reykjaesbæ.
Miðvikudagur 9. maí 2018 kl. 09:58

Reykjanesbær á krossgötum

-ársreikningur endurspeglar mikil umsvif á svæðinu, segja Sjálfstæðismenn

„Reykjanesbær stendur á krossgötum. Samfelld fólksfjölgun svo mörg ár í röð á sér engin fordæmi og hefur okkur tekist að taka á móti þessum mikla fjölda fólks þar sem mörg svæði voru tilbúin undir nýbyggingar. Húsnæði á Ásbrú og víðar stóð lengi ónotað en nú er allt að verða að fullu nýtt. Þessar hagstæðu ytri aðstæður má fyrst og fremst þakka hinni miklu fjölgun ferðamanna og þann gríðarlega vöxt sem hefur átt sér stað í starfsmannahaldi flugstöðvarinnar,“ sagði Baldur Guðmundsson, bæjarfulltrúi við afgreiðslu ársreiknings Reykjanesbæjar 2017 á bæjarstjórnarfundi í gær.

Baldur flutti bókun Sjálfstæðismanna og sagði ennfremur:
„Ársreikningur Reykjanesbæjar fyrir 2017 endurspeglar þessi miklu umsvif á svæðinu og ánægjulegu tíðindin eru þau að tekjur voru vanáætlaðar um nánast sömu tölu og rekstrarniðurstaða reikningsins sýnir. Skatttekjur voru þannig 13% umfram áætlun og jukust um 21% milli ára sem er vel og er framlegðin nú ríflega 18% og hefur ekki verið jafngóð síðan 2011. Launakostnaður jókst að sama skapi um 20% sem helgast af kjarasamningum og fjölgun stöðugilda m.a. á bæjarskrifstofum.

Langri lotu fjárhagslegrar endurskipulagningar lauk í byrjun þessa árs og hefur endurfjármögnun skulda skilað sér í lægri fjármagnskostnaði. Lækkunin nemur um 400 milljónum króna sem fer nálægt þeirri fjárhæð sem bærinn hefur greitt í ráðgjafakostnað við endurskipulagningu fjármálanna. Ekki tókst að fá niðurfellingu skulda í þessu ferli eins og lagt var upp með en ákveðnar eignir sem ekki gegna lögbundnu hlutverki voru settar í sér félag og eru núna í söluferli. Sú aðgerð er tímabundin ráðstöfun og leggja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins áherslu á að ljúka uppgjöri á málum tengdum Fork sjóðnum svo koma megi í veg fyrir sölu mikilvægra eigna á borð við Hljómahöllina, íþróttaakademíuna eða 88 húsið sem eru okkur mikilvægar til að viðhalda fjölbreyttu og líflegu samfélagi fyrir íbúana.

Lítið hefur verið fjárfest í innviðum samfélagsins á yfirstandandi kjörtímabili og allt útlit er fyrir að bygging Stapaskóla muni tefjast um eitt ár sem er miður. Til að mæta fyrirsjáanlegri áframhaldandi fjölgun íbúa sem kemur fram í húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar verður að huga að endurbættu aðalskipulagi bæjarins og gera ráð fyrir nýjum íbúahverfum í náinni framtíð.

Við fögnum því að fjárhagur Reykjanesbæjar sé að vænkast og bíðum spennt eftir að takast á við hin krefjandi verkefni sem bíða nýrrar bæjarstjórnar. Hér er samfélagið í örum vexti og hér eru mýmörg tækifæri til að vinna úr.“

Undir þessa bókun rituðu: Árni Sigfússon, Böðvar Jónsson, Baldur Guðmundsson og Ingigerður Sæmundsdóttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024