Reykjanes Geopark á lista UNESCO
Reykjanes jarðvangur (Geopark) er einn af tveimur íslenskum jarðvöngum sem eru í hópi 120 í heiminum sem samþykktir voru nýlega af UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Samþykktin var gerð á aðalráðstefnu UNESCO í París 3.-8. nóv. sl. Auk Reykjanes jarðvangs er Katla jarðvangur í þessum hópi.
Áætlunin, UNESCO Global Geoparks, er sú fyrsta síðan Heimsminjaskráin var stofnuð árið 1972. Nýja samþykktin er tímabær viðurkenning stjórnvalda á mikilvægi verndunar jarðminja og landslags á heildrænan hátt.
Með samþykktinni innleiddi UNESCO formlegt samstarf sem verið hefur á milli UNESCO og alþjóðlegra samtaka jarðvanga, Global Geoparks Network frá 2004.
Í dag eru 120 jarðvangar sem tilheyra UNESCO, tveir þeirra eru á Íslandi, en það eru Katla og Reykjanes sem bera einhverjar mikilvægustu náttúruminjar landsins.
Jarðvangar UNESCO búa yfir merkilegum jarðminjum á heimsvísu sem samanlagt skýra frá mótun lands frá upphafi og áhrif jarðfræðinnar á þróunarsögu, menningu og lífríki svæðanna. Jarðvangar eru því áhugaverð svæði vegna fræðslugildis, fjölbreytilegrar náttúru og sjaldgæfra jarðminja.
Markmið jarðvanga er að bæta þekkingu, viðhorf og verndarstöðu jarðminja á svæðunum um leið og heimamenn eru hvattir til nýta arfleifðina á sjálfbæran hátt til fræðandi ferðaþjónustu sem byggir á náttúru og menningu svæðisins. Þá hvetja jarðvangar til nýjunga í náttúrutengdri sköpun og til að draga fram og viðhalda menningararfleifð svæðanna. Heildrænt skipulag jarðvangs þarf að taka tillit til sjálfbærrar nýtingar og vinna að bestu aðferðum til uppbyggingar í sátt við náttúruna.
Tveir UNESCO jarðvangar á Íslandi
Íslensku jarðvangarnir eru samstarfsverkefni íbúa og stjórna sveitarfélaganna, fræðasamfélagsins og náttúrtengdra fyrirtækja sem vinna sameiginlega að því að byggja sterkara samfélag á gildum menntunar, verndar og nýtingar merkra jarðminja, menningarminja og náttúru. Aðild að UNESCO áætluninni er markaðssetning fyrir svæðin enda gerðar strangar kröfur til aðildarfélaga.
Katla jarðvangur nær yfir sveitarfélögin Rangárþing eystra, Mýrdalshrepp og Skaftárhrepp. Sérstaða jarðvangsins er eldvirkni og samspil eldvirkni og jökla. Yfir 150 eldsumbrot hafa mótað landið frá landnámi og haft áhrif á náttúrufar, búsetu og lifnaðarhætti fram til dagsins í dag.
Reykjanes jarðvangur nær yfir land fimm sveitarfélaga, þ.e. Grindavíkurbæ, Reykjanesbæ, Sandgerðisbæ, Sveitarfélagið Garð og Sveitarfélagið Voga. Sérstaða jarðvangsins er Mið-Atlantshafshryggurinn og afleiðingar hans, s.s. jarðhiti, skjálftavirkni, eldsumbrot og hreyfingar Evrasíu og Norður-Ameríkuflekans.“