Réttindalaus stöðvuð í áttunda sinn
Lögreglan á Suðurnesjum hafði í gærdag afskipti af tæplega fertugri konu sem ók um án þess að hafa endurnýjað ökuskírteini sitt. Var þetta í áttunda skiptið sem lögregla stöðvar akstur konunnar vegna þessa.
Þá var sautján ára stúlka stöðvuð þar sem hún ók í umdæminu. Hún reyndist vera án ökuréttinda og viðurkenndi brot sitt. Að auki hafði hún tekið bílinn ófrjálsri hendi.
Loks var karlmaður á fertugsaldri stöðvaður, þar sem hann ók eftir vegaröxl á Reykjanesbraut. Framrúða bifreiðar hans var brotin og að auki var bifreiðin ótryggð. Ökumaðurinn var aukin heldur ekki með ökuskírteini meðferðis. Lögregla fjarlægði skráningarnúmerin af bifreiðinni.