Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Réttarstaða ungmennanna enn óljós
Föstudagur 20. maí 2005 kl. 14:14

Réttarstaða ungmennanna enn óljós

Yfirheyrslur yfir ungmennunum sem komu hingað til lands með ólögleg vegabréf standa nú yfir. Þau eru undir lögaldri. Þeir sem koma að yfirheyrslunni eru rannsóknarlögreglumenn frá Sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, túlkur og fulltrúi frá Barnaverndarnefnd Sandgerðisbæjar.

Stúlkurnar þrjár og strákurinn hafa verið í umsjón lögreglunnar á gistiheimili í Reykjanesbæ. Yfirheyrslur hófust klukkan 9 í morgun og munu þær standa fram eftir degi. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta þá er ekki enn vitað um réttarstöðu ungmennanna.

Gyða Hjartardóttir, félagsmálastjóri í Sandgerði, sagði í samtali við Víkurfréttir að hlutverk Barnaverndarnefndar væri fyrst og fremst að gæta réttinda barnanna. „Það var haft samband við okkur um leið og vitað var að börn ættu í hlut,“ sagði Gyða.

Ástæðan fyrir því að barnaverndarnefnd frá Sandgerði sér um málið er sú að Keflavíkurflugvöllur er á landsvæði Sandgerðisbæjar en samkvæmt lögum eru það barnaverndarnefndir í hverju bæjarfélagi fyrir sig sem taka á þeim málum sem upp koma í þeirra umdæmum.

Fylgdarmaður ungmennanna, sem er á fimmtugsaldri, var úrskurðaður í viku gæsluvarðhald í gær. Ástæður ferðalagsins eru enn óljósar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024