Rennslismælar leysa hemlana af hólmi
Unnið er að því á vegum HS veitna að setja upp rennslismæla í fyrirtækjum og stofnunum á Suðurnesjum og munu þeir leysa gömlu hemlana af hólmi. Ákveðið hefur verið að skipta út 900 hemlum og á verkinu að vera lokið næstu jól.
Fyrirhugað er að setja upp rennslismæla á heimilum á Suðurnesjum en ákvörðun um tímasetningu hefur ekki verið tekin.
Vinnu við uppsetningu mælanna er lokið í Vogum og unnið er að uppsetningu í Garði og Sandgerði.
Í nýjasta tölublaði Fréttaveitunnar, fréttabréfs HS veitna, segir að með tilkomu mælanna gefist viðskiptavinum aukið svigrúm til að fylgjast með og stjórna nýtingu sinni. Ljóst hafi verið allt frá árinu 2004 að breytinga væri þörf þar sem framleiðslu hemlanna yrði hætt og erfitt hafi verið að fá hemla sem stæðust kröfur um nákvæmni og stöðugleika.