Rekstur grunnskólanna verði sameinaður
Rekstur grunnskólanna tveggja í Grindavík verður sameinaður. Ráðinn verður einn skólastjóri yfir báða skólana til að tryggja heildstætt skólastarf og hagræðingu í rekstri. Þetta kemur fram í málefnasamningi nýja meirihlutans í Grindavík.
Nýr grunnskóli, Hópsskóli, var opnaður í Grindavík síðastliðið haust og var Maggý Hrönn Hermannsdóttir ráðin skólastjóri. Skólastjóri Grunnskólans hefur verið Páll Leó Jónsson.
Samkvæmt því sem snýr að skólamálum í málefnasamningnum ætlar meirihlutinn að stefna að bættu samstarfi skólaskrifstofu við leik- og grunnskóla bæjarins. Áfram verður stefnt að því að börn 18 mánaða og eldri eigi kost á leikskólaplássi. Fullorðinsfræðsla verði aukin í Grindavík í samráði við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og styðja á við áframhaldandi uppbyggingu Fisktækniskóla Íslands.
---
Mynd: Frá Hópsskóla í Grindavík.