Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Rekstur Grindavíkurbæjar á réttri leið
Fimmtudagur 1. desember 2011 kl. 16:25

Rekstur Grindavíkurbæjar á réttri leið

Við fyrri umræðu í Bæjarstjórn Grindavíkur í gær um fjárhagsáætlun Grindavíkurbæjar fyrir árið 2012 kom fram að áætlað er að um 65 milljóna króna afgangur verði af rekstri samstæðu. Áætlunin ber með sér að rekstur bæjarins sé á réttri leið og í samræmi við markmiðin sem samþykkt voru í nóvember 2010 en samkvæmt þeim er heimilt að nýta helming vaxtatekna til rekstrar á árinu 2012. Nokkur óvissa ríkir um framlög Jöfnunarsjóðs sem ætti að skýrast fyrir síðari umræðu og því gæti áætlunin breyst fyrir síðari umræðuna. Frá þessu er greint á vef Grindavíkurbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Áætlaður rekstrarafgangur á næsta ári er tilkominn vegna vaxtatekna og söluhagnaðs. Staðan er því enn þannig að skatttekjur og þjónustugjöld standa ekki undir reglubundnum rekstri, en markmiðið er að það gerist á árinu 2013.

Róbert Ragnarsson bæjarstjóri segir að þar sem búið er að greiða upp nánast allar skuldir bæjarins er fjárfestingageta talsverð án þess þó að það þurfi að taka ný lán.

„Áætlað er að fjárfesta á næsta ári fyrir um 400 milljónir sem verður fjármagnað með veltufé úr rekstrinum og um 140 milljóna framlagi af HS sjóðnum. Í dag stendur sjóðurinn í um 1.300 milljónum. Markmið fjárfestinganna er að koma með mikla innspýtingu inn í atvinnulífið og skapa þannig aukna atvinnu og þar með tekjur fyrir bæjarsjóð. Í forgangi er að bæta aðstöðu bókasafns og tónlistarskóla, en á starfsmannafundi Grindavíkurbæjar í haust komu fram mjög skýrar ábendingar um að bæta þyrfti úr aðstöðu í þeim stofnunum. Auk þess er ráðgert að hefja framkvæmdir við stækkun íþróttahúss og breytingar á félagsaðstöðu fyrir UMFG. Árið 2012 verður líka mikið göngustígaár," segir Róbert.

Í fyrsta sinn verður haldinn íbúafundur milli fyrri og seinni umræðu um fjárhagsáætlun þar sem staðan og áætlunin verður kynnt og íbúar geta komið sínum sjónarmiðum og hugmyndum á framfæri. Fundurinn fer fram í Hópsskóla 8. desember nk.