Rekstrarniðurstaðan í Vogum neikvæð um 70,8 milljónir króna
Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Voga fyrir árin 2022–2025 var lögð fram til fyrri umræðu á síðasta fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga. Tillagan gerir ráð fyrir að heildartekjur samstæðunnar árið 2022 verði 1.571 milljónir króna. Rekstrargjöld eru áætluð 1.497 milljónir króna, og er rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir því áætluð 73,6 milljónir króna. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða er rekstrarniðurstaðan áætluð neikvæð um 70,8 illjónir króna.
Gert er ráð fyrir að fjárfestingar árið 2022 verði tæpar 238 milljónir króna, og þær alfarið fjármagnaðar með nýjum lántökum.
Bæjarstjórn samþykkir að álagningarprósenta útsvars skuli vera óbreytt frá fyrra ári, 14,52%.
Bæjarfulltrúi E-listans lagði fram bókun, í ljósi þess að Sveitarfélagið Vogar stendur nú að ýmsum aðhaldsaðgerðum, að laun kjörinna fulltrúa sem og nefndarlaun verði fryst, og taki því ekki breytingum samkvæmt launavísitölu árið 2022.
Bæjarstjórn samþykkti að vísa tillögunni til síðari umræðu í bæjarstjórn, sem að öllu óbreyttu fer fram miðvikudaginn 24. nóvember 2021.