Rekinn fyrir að hafa vín um hönd
Einni skærustu stjörnu MBL Sjónvarps, Gunnari á Völlum, var vísað á brott frá Grindavíkurvelli í hálfleik á leik Grindavíkur og Stjörnunnar á sunnudag. Innslag með Gunnari birtist á vef mbl.is í gærdag undir fyrirsögninni „Gunnar rekinn af völlum!“ þar sem m.a. sagði:
„Það voru himneskar veigar er biðu Gunnars þegar hann mætti í Grindavíkina þegar heimamenn fengu Stjörnumenn í heimsókn í Pepsí-deildinni. Það var sama í hvaða horn var litið Grindvíkingar sáu um að strá rósum fyrir fætur Gunnars“.
En Gunnar á Völlum var ekki lengi í paradís því án útskýringar var honum vísað í burtu af Grindavíkurvelli. Nú hefur heimasíða Grindavíkurbæjar upplýst að ástæða þess að Gunnar var rekinn af vallarsvæðinu var sú að Gunnar hafði vín um hönd.
Þeir sem skoðað hafa innslag Gunnars frá leiknum í MBL Sjónvarpi sjá að honum er boðið í mikla veislu fyrir leikinn, þar sem m.a. er veitt áfengi. Áfengi er einnig haft um hönd á meðan leik stendur og síðar í myndbandinu sést hvar þáttarstjórnandinn ekur sem leið liggur frá Grindavík til Hafnarfjarðar, þar sem farið er á leik með FH. Af innslaginu í Sjónvarpi MBL má sjá að orðin „eftir einn ei aki neinn“ eru ekki höfð í heiðri.
Myndirnar eru skjáskot úr innslaginu með Gunnari á Völlum og heimsókn hans til Grindavíkur.