Reisbílar halda lóðinni við Reykjanesbrautina
 Reisbílar ehf. halda lóð sinni sem er við hlið Reykjanesbrautarinnar en þeir jöfnuðu tilboð Smáratorgs ehf. sem höfðu boðið í lóðina þegar hún var sett á uppboð. Víkurfréttir greindu frá því fyrir nokkru að Smáratorg ehf. hugðist reisa verslunarmiðstöð á lóð Reisbíla en svo virðist sem að það eigi eftir að frestast eitthvað.
Reisbílar ehf. halda lóð sinni sem er við hlið Reykjanesbrautarinnar en þeir jöfnuðu tilboð Smáratorgs ehf. sem höfðu boðið í lóðina þegar hún var sett á uppboð. Víkurfréttir greindu frá því fyrir nokkru að Smáratorg ehf. hugðist reisa verslunarmiðstöð á lóð Reisbíla en svo virðist sem að það eigi eftir að frestast eitthvað.Stefán Guðmundsson, einn eigenda Reisbíla ehf., sagði í samtali við Víkurfréttir að viðræður milli Reisbíla ehf. og Reykjanesbæjar væru vel á veg kominn en áætlað er að flytja starfsemi þeirra fyrrnefndu hinum megin við Reykjanesbrautina.
„Viðræðunum er ekki lokið því landið er ekki enn fundið. Það gerist á næstu dögum eða alla veganna innan tveggja vikna,“ sagði Stefán.
Honum líst þó ekki illa á þá hugmynd að verslunarmiðstöð rísi á lóð þeirri sem körtuaksturinn er á núna: „Ég verð fyrsti maðurinn til að kaupa kodda þegar að því kemur,“ sagði Stefán.
Samkvæmt heimildum Víkurfrétta er Smáratorg ehf. ennþá að skoða þann möguleika að byggja verslunarmiðstöð í Reykjanesbæ en þeir eru eigendur að Rúmfatalagernum. Heimildir Víkurfrétta herma að auk Rúmfatalagersins ætli Byko og Hagkaup að opna þar verslanir.


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				