Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Miðvikudagur 5. júlí 2000 kl. 14:04

Reiði vegna uppsagna H.B. í Sandgerði

Bæjarráð Sandgerðisbæjar lýsir yfir megnri óánægju með þau úrræði sem stjórnendur HB hf. á Akranesi hafa gripið til eftir sameiningu HB við Miðnes í Sandgerði. Nánast öll útgerð hins nýja fyrirtækis hafi verið lögð af í Sandgerði sem og öll viðhaldsþjónusta og nú sé búið að segja öllu fiskvinnslufólki HB í bæjarfélaginu upp störfum. Bæjarráð tók uppsagnirnar til umfjöllunar á fundi sínum í gærkvöld og samþykkti að óska eftir viðræðum við forsvarsmenn H.B. Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri Sandgerðisbæjar, sagði það vera ljóst að það sem sagt var á sínum tíma hafi ekki staðist, þ.e. að vinnsla myndi vera stöðug og að fyrirtækið væri komið til að vera. „Aðalatriðið í mínum huga er að bæjarfélagið hefur lagt mikla fjármuni í hafnaraðstöðu í gegnum árin. Nú þegar við sjáum fyrir endann á þeim, eru þeir farnir og fólkið skilið eftir í uppnámi. Sem betur fer er atvinna næg og starfsfólk H.B. er enn við vinnu, en ég geri ráð fyrir að það fari að leita sér að annarri vinnu á næstunni. Staðan er þröng hjá sveitarfélögum og það er því mjög erfitt þegar svo stór fyrirtæki loka“, sagði Sigurður Valur. Haraldur Sturlaugsson, framkvæmdastjóri H.B., sagði að ekki stæði til að ræða við yfirvöld í Sandgerðisbæ að svo komnu máli í gegnum fjölmiðla, en þeir væru tilbúnir að ræða málin beint við ráðamenn bæjarins. „Loðnumarkaðurinn datt alveg niður í haust og við vorum því tilneyddir að loka, allavega tímabundið“, sagði Haraldur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024