Reiðhöll rís í Grindavík
Bæjarstjórn Grindavíkur styrkir Grindavíkurdeild Mána um 50 milljónir til byggingar á reiðhöll í nýju framtíðar hesthúsahverfi Grindvíkinga. Skrifað var undir samning í Saltfiskssetrinu í dag.
Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri, sagði við þetta tækifæri að um nokkurn tíma hafi verið stefnt að og mikill áhugi væri hjá hestamönnum að byggja reiðhöll. „Reiðhöll mun gjörbreyta allri aðstöðu við inniæfingar, möguleika í þjálfun og eflingar íþróttagreinarinnar.“
Grindavíkurbær hefur stutt ötullega við íþróttastarf með ýmsum styrkjum. Börn og unglingar í Grindavík borga engin æfingjöld. Nýverið var skrifað undir samning við Golfklúbb Grindavíkur upp á 50 milljónir til að gera 18 holu völl og nú er komið að hestamönnum.
„Með styrkveitingunni erum við bjartsýnir á að íþróttin eflist enn frekar. Töluverð uppbygging er hjá hestamönnum því ásamt reiðhöll kemur nýtt hesthúsahverfi, reiðgerði og skeiðvöllur. Það er horft til framtíðar hjá hestamönnum og Grindavíkurbæ með glæsilegri uppbyggingu,“ sagði Ólafur.
Steinþór Helgason, formaður Grindavíkurdeildar hestamannafélagsins Mána, var að vonum ánægður og sagði að styrkveitingin kæmi sér vel fyrir áframhaldandi uppbyggingu á hestaíþrótta í Grindavík.
„Sú þróun hefur orðið víða á landinu að reiðhallir eru að rísa við hesthúsahverfi. Nú höfum við fengið fjárveitingu og ferlið er farið af stað. Það er mikill áhugi fyrir hestaíþróttinni, við búum svo vel að hafa frábærar reiðleiðir hér í nágrenni sem eru mjög vinsælar en gott verður að fá inniaðstöðu líka,“ sagði Steinþór.
Við undirskrift samningsins í dag. - VF-mynd/IngaSæm