Reiðhjólafólk og golfiðkendur fjölmenna á tjaldsvæðið
Margföld aukning frá því í fyrra á tjaldsvæðinu í Sandgerði
Metaðsókn hefur verið á tjaldsvæðinu í Sandgerði í sumar en þar eru erlendir ferðamenn í miklum meirihluta. Reynir Sveinsson, umsjónarmaður tjaldsvæðisins telur þá vera um 80-90% þeirra sem gista á tjaldsvæðinu og að margir þeirra séu reiðhjólafólk sem dvelur í Sandgerði fyrstu og jafnvel einnig síðustu daga ferðar sinnar um Ísland. Reynir segir að þrátt fyrir leiðinlegt veður hafi verið mikil aukning frá því í fyrra varðandi aðsókn og að fínasta stemning sé oft á tjaldsvæðinu. „Í fyrra byrjuðum við á að vera með útilegukortið þar sem ferðamenn kaupa sér kortið og fá aðgang að mörgum tjaldsvæðum um land allt. Við erum einnig með kortið til sölu og fáum tekjur af því,“ segir Reynir.
Ekki eru allir gestirnir útlendingar, heldur hefur það færst í aukana að Íslendingar heimsæki tjaldsvæðið og margir þeirra fara í golf og skoða sig einnig um á Reykjanesinu. „Það er virkilega gaman að heyra hvað allir ferðamennirnir sem koma til okkar eru ánægðir með svæðið hér í kring. Vonandi verður það til þess að Reykjanesið verði vinsælli ferðamannastaður í framtíðinni.“ Aðstaðan á tjaldsvæðinu er góð en Reynir segir bráðum þörf á því að stækka skálann eins og gert hefur verið m.a. í Grindavík. „Þegar veðrið er slæmt, eins og það var í byrjun sumars, þá væri gott að hafa aðstöðu fyrir fólk til þess að safnast saman innandyra á kvöldin. Það myndi eflaust laða að ennþá fleiri ferðamenn,“ segir Reynir að lokum.
Mikið er um að vera á tjaldsvæðinu á Sandgerðisdögum sem fara fram síðustu helgina í ágúst.