Reglur um heiðursborgara samþykktar í Vogum
- viðkomandi hafi haft veruleg jákvæð áhrif á samfélagið
Mörg sveitarfélög hafa viðhaft þann sið að útnefna heiðursborgara í sveitarfélögum sínum. Málefnið hefur öðru hvoru borið á góma á vettvangi bæjaryfirvalda í Sveitarfélaginu Vogum undanfarin misseri, og það rætt hvort komi til álita að setja slíkar reglur í sveitarfélaginu.
Nú hefur bæjarráð Voga tekið málið til umfjöllunar og samþykkt á fundi sínum drög að reglum um val og útnefningu heiðursborgara Sveitarfélagsins Voga. Reglurnar gera ráð fyrir að bæjarstjórn geti útnefnt hvern þann íbúa, fyrrverandi sem núverandi, sem heiðursborgara, og að við valið skuli m.a. haft í huga að störf viðkomandi hafi haft veruleg jákvæð áhrif á samfélagið; störf og framganga hafi verið til fyrirmyndar og til eftirbreytni og að viðkomandi hafi stuðlað að jákvæðri ímynd bæði innan sveitarfélagsins sem utan.
Reglurnar fara nú til staðfestingar hjá bæjarstjórn Voga. Í kjölfarið mun bæjarstjórn hafa frumkvæði að tilnefningu heiðursborgara sveitarfélagsins.