„Réðst ítrekað á lögregluþjóna“
-Segir vitni að átökunum milli tveggja lögreglumanna og mannsins sem lést.
Mikil átök áttu sér stað á milli tveggja lögreglumanna og mannsins sem lést að Túngötu í Keflavík seinnipartinn í gær.
Vitni að átökunum sem ekki vill láta nafns síns getið segir að maðurinn hafi meðal annars sparkað í maga annars lögreglumannsins. „Höggið hefur verið það mikið að lögreglumaðurinn lamaðist í smá tíma og maðurinn fór þá aftur í hann. Lögreglumennirnir áttu mjög erfitt með að hafa manninn undir því hann var greinilega mjög æstur og réðst ítrekað á þá, fyrir utan það að hann var mjög mikill vexti,“ segir vitnið sem fór af vettvangi þegar þarna var komið sögu. Skömmu síðar sá vitnið sjúkrabifreið á vettvangi þar sem lífgunartilraunir á manninum stóðu yfir.
Maðurinn sem lést hefur átt við geðræn vandamál að stríða um árabil sem og faðir hans, en þeir bjuggu saman.
Lögreglumenn frá embætti ríkislögreglustjóra unnu að rannsókn á vettvangi fram á nótt.