Rauði krossinn fær kerru til fjöldahjálpar
- Til nota við fyrstu hjálp ef til slysa eða náttúruhamfara kæmi
Deildir Rauða krossins á Suðurnesjum og í Grindavík fengu á dögunum afhenda fjöldahjálparkerru til að hafa til taks á svæðinu. „Ef hér yrði stórt slys, til dæmis flugslys, rútuslys eða ef skemmtiferðaskip myndi sökkva eða ef það yrðu hér náttúruhamfarir eins og eldgos, flóð eða jarðskjálfti, þá myndum við nota búnaðinn í kerrunni sem okkar fyrsta viðbragð. Þetta er lítil fjöldahjálparstöð með öllum helsta fyrsta viðbúnaði,“ segir Guðmundur Þ. Ingólfsson, verkefnastjóri neyðarnefndar Rauða krossins á Suðurnesjum. Í kerrunni eru 30 hermannabeddar, 60 teppi, neyðarmatur, skriffæri, merkingar, ljósavél og fleira sem til þarf til að opna fjöldahjálparstöð.
Í Hafnarfirði er birgðastöð deilda Rauða krossins á Íslandi þar sem neyðarhjálparbúnaður er geymdur. „Þá gætum við notað búnaðinn í kerrunni sem fyrsta viðbragð og í framhaldinu kallað eftir því að fá búnaðinn sendan frá Hafnarfirði. Þar erum við með tvo gáma og í hvorum þeirra eru 750 beddar og 3000 teppi svo við erum vel búin. Til dæmis væri hægt að nota Reykjaneshöllina og setja þar upp bedda og sinna fjölda fólks fljótt.“
Til stendur að hafa slíkar fjöldahjálparkerrur til taks í öllum lögregluumdæmum landsins og er þessi sem kom til Suðurnesja á dögunum sú fyrsta sem afhent hefur verið. „Eftir eldgosið í Eyjafjallajökli kom þessi hugmynd upp. Þá fórum við að hugsa um hvernig við þyrftum að vera búin ef rýma þarf Suðurlandið. Í framhaldinu sóttum við um styrk til verkefnasjóðs á vegum landsskrifstofu Rauða krossins um að fá þessa fjöldahjálparkerru. Ef neyðarástand skapast yrði Landsskrifstofa Rauða krossins með yfirumsjón með viðbúnaði en stærri deildir úti á landi geta nýtt sér búnaðinn í svona kerru því þær sinna aðhlynningu á þeim svæðum þar sem mörgu slösuðu fólki er safnað saman. Ef til þess kæmi hér, myndi þessi búnaður koma sér mjög vel.“