Rauðhöfði við Akurskóla fær nýtt framhaldslíf
Fjórir nemendur í Akurskóla gáfu nýlega hvalnum Rauðhöfða nýtt framhaldslíf en hann er listaverk við skólann. Þær Obba, Álfrún, Nína Emilía og Þórey máluðu hvalinn og var verkið afhjúpað að viðstöddum nemendum og hluta starfsfólks skólans.
Hugmyndin að Rauðhöfða þegar hann verður upphaflega gerður var sótt í þjóðsögur frá Suðurnesjum. „Með skapandi hugsun og dugnaði hafið þið gert umhverfið fallegra og um leið skólalóðina skemmtilegri. Þið hafið sannað hvað hægt er að áorka með skapandi huga og trú á mikilvægi listar í umhverfi okkar. Þið hafið skapað list fyrir nærsamfélagið (okkur öll) til að njóta og dáðst að. Þið hafið sannað hvað hægt er að gera með samvinnu, skapandi huga og trú á fegurð. Samspil lita, hugmynda og forma. Þið hafið málað fiska, strigaskó, eldgos, stjörnumerkin, blóm, landslag og sitthvað annað á hvalinn Rauðhöfða,“ sagði Helga Lára Haraldsdóttir, kennari við Akurskóla við afhjúpun „nýs“ Rauðhöfða.
Listakonurnar fengu góða aðstoð frá Slippfélaginu í þessu verkefni í formi málningar á hvalinn, þær fengu pítsur frá Domino’s og Akurskóli gaf þeim bíómiða.
Meðfylgjandi myndir voru teknar við afhjúpun „nýja“ Rauðhöfða.