Rannsókna- og fræðasetur í trúarbragðafræðum stofnað á Vallarheiði
Hjá Keili á Vallarheiði hefur staðið yfir undirbúningur að Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar, sem verður rannsókna- og fræðasetur í trúarbragðafræðum og guðfræði.
Kirkjuþing hefur þegar staðfest stofnskrá fyrir stofnunina.
Aðsetur stofnunarinnar verður í Kapellu ljóssins á Vallarheiði. Hún er stofnuð í samstarfi við Guðfræðistofnun Háskóla Íslands og starfar í samvinnu við alþjóðaháskólann Keili.
Í stofnskrá segir að stofnunin skuli stefna að samvinnu við erlendar guðfræðistofnanir, erlenda og innlenda háskóla, rannsóknarstofnanir í trúarbragðafræðum, aðrar kirkjudeildir og Samráðsvettvang trúarbragða.
Hlutverk Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar er að vinna að rannsóknum og fræðslu í trúarbragðafræði og guðfræði í þeim tilgangi að auka þekkingu og skilning á trúarbrögðum heimsins og stuðla að sáttargjörð ólíkra trúarviðhorfa, vinna gegn tortryggni og efla skilning og umburðarlyndi, segir í stofnskrá.