Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Rannsaka súrnun sjávar í Sandgerði
  • Rannsaka súrnun sjávar í Sandgerði
    Hrönn Egilsdóttir, rannsóknarmaður hjá Jarðvísindastofnun HÍ.
Föstudagur 26. febrúar 2016 kl. 06:00

Rannsaka súrnun sjávar í Sandgerði

- Byggja upp aðstöðu til rannsókna

Unnið er að uppsetningu á aðstöðu til rannsókna á súrnun sjávar hjá Þekkingarsetri Suðurnesja í Sandgerði. Verkefnið er unnið í samvinnu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum og Náttúrustofu Suðvesturlands. Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka veitti á dögunum styrk til uppbyggingarinnar. Einn umsjónarmanna verkefnisins er Hrönn Egilsdóttir, rannsóknarmaður hjá Jarðvísindastofnun HÍ. Að hennar sögn er súrnun sjávar ein alvarlegasta umhverfisógnin hér á landi og því brýnt að byggja upp aðstöðu til rannsókna. „Vegna aðstöðuleysis hefur ekki verið mögulegt að rannsaka áhrif súrnunar sjávar á lífverur á íslenskum hafsvæðum. Markmiðið er að skapa hágæða tilraunaaðstöðu sem mun nýtast til nauðsynlegrar þekkingarsköpunar innanlands og sem einnig væri hægt að leigja erlendum rannsóknarteymum, en staðsetning Íslands er ákjósanleg fyrir rannsóknir sem þessar.“
 
Hrönn segir kjörið að setja upp slíka tilraunaaðstöðu hjá Þekkingarsetri Suðurnesja í Sandgerði enda sé þar aðgangur að hreinum borholusjó sem hefur síast í gegnum bergið. Þá sé mikil þekking til staðar innanhúss sem nýtist í rannsóknir sem þessar.
 
Að sögn Hrannar hafa mælingar Hafrannsóknastofnunar sýnt glöggt að sjórinn norður af Íslandi súrni sérstaklega hratt og útskýrist það helst af lágu hitastigi. „Það eru að eiga sér stað miklar og hraðar breytingar og því hefur verið kallað eftir auknum rannsóknum á áhrifum þeirra,“ segir hún. Sjórinn súrnar vegna upptöku á koltvíoxíði úr andrúmslofti. „Frá iðnvæðingu hafa höf jarðar tekið upp um 30 prósent af öllu koltvíoxíði sem bætt hefur verið út í andrúmsloftið vegna athafna manna. Það hefur valdið efnabreytingum í sjónum og því hefur sýrustig (pH) hans lækkað. Það er kallað súrnun sjávar,“ útskýrir Hrönn. Undanfarin ár hefur Hrönn meðal annars skoðað áhrif súrnunar á kalkmyndandi lífríki. Meðfram lækkandi sýrustigi þá lækkar kalkmettun í hafinu sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir margar lífverur sem framleiða kalk.  Þessar lífverur geta verið mikilvægur hlekkur í fæðukeðjum enda hafa Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) kallað eftir frekari rannsóknum á mögulegum áhrifum þessara breytinga.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024