Rangt að sérstök hætta stafi af notkun rafbúnaðar
Vegna umfjöllunar um rafmagnsmál á fyrrum varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli þá vill Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar koma eftirfarandi á framfæri:
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (ÞK) hefur lokið fullnaðarbreytingu á öllum þeim mannvirkjum sem eru í umsýslu félagsins og eru í notkun. Þeim byggingum sem ekki eru í notkun hefur verið breytt á þann hátt sem samræmist íslenskum reglum og kröfum til húsnæðis á byggingar- og endurbótastigi. Ekki verður ráðist í kostnaðarsamar fullnaðarendurbætur eigna fyrr en ljóst verður með nýtingu þeirra. Þegar sú nýting verður ljós mun rafkerfi þeirra verða fullklárað. Slík nálgun er algerlega í samræmi við lög og venjur á íslenskum byggingamarkaði.
Þróunarfélaginu er kunnugt um, hvað varðar aðrar eignir á fyrrum varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll, að eigendur þeirra hafi unnið í samstarfi við viðkomandi yfirvöld að nýrri áætlun um fullnaðarbreytingu rafkerfis til samræmis við gildandi staðla. Það á að mestu leiti við þær byggingar sem standa ónotaðar og rafkerfi þeirra því ekki í notkun. Í öllum íbúðum sem teknar hafa verið til notkunar hafa verið gerðar breytingar á rafbúnaði þeirra með öryggi að leiðarljósi. Búið er að fullklára breytingar í tæplega helmingi eigna í notkun, og eru þær íbúðir að engu frábrugðnar öðrum eignum hér á landi hvað rafbúnað varðar almennt. Aðrar eignir uppfylla þær öryggiskröfur sem settar voru af yfirvöldum og eigendum eigna á svæðinu í tengslum við áætlun um breytingu rafkerfisins.
Við framkvæmd verkefnisins sem unnið hefur verið af viðeigandi fagmönnum þar með talið rafmagnsverkfræðingum og löggiltum rafverktökum, hefur verið tryggt að fyllsta öryggis sé gætt og að öryggi notendanna sé eigi lakara en gengur og gerist á Íslandi almennt í tengslum við rafmagn. Aldrei hefur verið sýnt fram á það með rökum að einhver hætta geti stafað af umbreytingu rafkerfisins, hvorki fyrir íbúa né fyrir þá iðnaðarmenn sem vinna við þessar eignir. Enda hefði undanþága frá reglum þá aldrei fengist. Rafbúnaðurinn er notaður víða um heim án vandræða og uppfyllir þá staðla og kröfur sem á þeim svæðum gilda. Því er rangt að sérstök hætta stafi af notkun hans hér. Frá því að nýting eignanna hófst hafa ekki komið upp nein tilvik sem benda til þess að umrædd hætta sé til staðar.