Ragnheiður Skúladóttir listamaður Reykjanesbæjar
Ragnheiður Skúladóttir píanóleikari og píanókennari hefur verið tilnefnd sem Listamaður Reykjanesbæjar 2009 - 2012 og var það Böðvar Jónsson formaður bæjarráðs sem kynnti þá niðurstöðu bæjarráðs í þjóðhátíðardagskrá í gær en listamaður Reykjanesbæjar er tilnefndur einu sinni á hverju kjörtímabili.
Ragnheiður er erlendis og mun hún veita viðurkenningunni mótttöku síðar í sumar.
Ragnheiður Skúladóttir hóf píanónám 10 ára gömul, hjá frú Vigdísi Jakobsdóttur. Fjórum árum síðar, árið 1957, hóf hún píanónám við Tónlistarskólann í Keflavík sem þá var ný stofnaður. Tveimur árum síðar, er Ragnheiður var aðeins 16 ára gömul, var hún orðin undirleikari hjá Karlakór Keflavíkur, sem segir heilmikið um tónlistarhæfileika hennar og hve efnilegur nemandi hún var.
Ragnheiður starfaði í mörg ár með Karlakórnum og varð mjög fljótt eftirsóttur undirleikari og hefur í gegn um tíðina leikið með fjöldanum öllum af listamönnum, bæði einsöngvurum, kórum og hljóðfæraleikurum.
Ragnheiður hóf mjög ung að kenna á píanó og þá við Tónlistarskólann í Keflavík, þar sem hún starfaði allt þar til Tónlistarskóli Reykjanesbæjar tók til starfa haustið 1999. Ragnheiður var þá ráðin að þeim nýja skóla og gerð að deildarstjóra hljómborðsdeildar tveimur árum síðar.
Ragnheiður hefur alltaf verið afar vinsæll kennari, nemendur sóst sérstaklega eftir því að komast að hjá henni, og þannig er það ennþá, að færri komast að í píanónám hjá Ragnheiði en vilja.
Ragnheiður hefur verið virkur þátttakandi í tónlistarlífi Keflavíkur og Njarðvíkur, síðar Reykjanesbæjar, í um 50 ár, bæði sem píanóleikari og tónlistarkennari. Ragnheiður er listamaður á báðum þessum sviðum.
Hún er mjög næm á mannlega þætti og það kemur berlega í ljós í hennar störfum. Ekki síður þegar sem hún er í hlutverki píanóleikarans í undirleik.
Hún er einnig sérlega næm á listræna túlkun tónlistar og hefur leiðbeint mörgum nemendum, sem og fullburða listamönnum á því sviði, í hlutverki undirleikarans.
Oftast er það svo að það ber meira á þeim tónlistarflytjanda sem er í framlínunni, þ.e. einsöngvaranum, einleikaranum eða kórnum. Þeir eru í aðal hlutverkunum í flestra augum. En það er nú alltaf þannig að þegar tónlist er samin eða útsett með undirleik í huga, þá er undirleikurinn ekki minna mikilvægur. Hann er hluti af tónlistinni. Hluti af heildarmyndinni og þeirri upplifun sem áheyrendurnir verða fyrir. Undirleikurinn eða meðleikurinn er þess vegna líka listgrein og er sérstök námsgrein víða í listaháskólum erlendis.
Ragnheiður er einn af okkar mestu og reyndustu listamönnum og hefur auðgað tónlistarlíf Reykjanesbæjar ómælt, í hátt í hálfa öld.
Listamaður Reykjanesbæjar
Listamaður Reykjanesbæjar er útnefndur einu sinni á hverju kjörtímabili. Það er bæjarráð sem velur hann og hefur til hliðsjónar eftirfarandi reglur:
Í lok hvers kjörtímabils er óskað eftir tillögum eða óskum um listamann Reykjanesbæjar. Allar listgreinar og öll listform koma til greina. Bæjarráð úthlutar nafnbótinni. Ráðið skal fara yfir þær óskir og tillögur sem fram koma og er einng heilmilt að bæta við nöfnum sem til greina koma eftir því sem ástæða er til. Bæjarráði er heimilt að ráða sér aðstoðarfólk eftir þörfum vegna úthlutunar þessarar. Sá sem hlýtur nafnbótina Listamaður Reykjanesbæjar fær styrk til að auðvelda viðkomandi að stunda list sína, viðurkenningarspjald og grip til minningar um atburðinn. Þá verða nöfn þeirra skráð á stall listaverks sem stendur í skrúðgarði bæjarins. Listamanni Reykjanesbæjar er skylt að halda sýningu eða kynna á annan hátt list sína.
1991 Erlingur Jónsson
1992 Gunnar Þórðarson
1993 Halla Haraldsdóttir
1994 Hilmar Jónsson
1997 Sossa Björnsdóttir
2001 Gunnar Eyjólfsson
2005 Rúnar Júlíusson