Ragnheiður í forystusætið í Suðurkjördæmi?
Leitað hefur verið til Ragnheiðar E. Árnadóttur um að bjóða sig fram í efsta sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi prófkjör flokksins í mars nk. „Ég get staðfest að það hefur verið leitað til mín og ég að ég sé að hugsa málið,“ sagði Ragnheiður í samtali við Víkurfréttir.
Hópur sjálfstæðismanna á Reykjanesi vill sjá nýjan frambjóðanda í forystusæti listans fyrir komandi kosningar og kom nafn Ragnheiðar upp meðal annars vegna tengsla hennar við svæðið en hún er fædd og uppalin í Keflavík. Hún býr nú í Garðabæ og var í 5. sæti á D-lista í Sv-kjördæmi fyrir síðustu kosningar.
„Við viljum sjá nýja og ferska strauma í forystu okkar í Suðurkjördæmi. Ragnheiður er frábær kandidat í hlutverkið, vel menntuð, ung kona en með mikla reynslu,“ sagði einn sjálfstæðismaður við Víkurfréttir.Vitað er að báðir Árnarnir, Mathiesen og Johnsen hafa huga á efsta sæti listans en sá fyrrnefndi leiddi listann eftir síðustu kosningar.
Ragnheiður sem er stúdent frá Kvennaskólanum, með MA próf í stjórnmálafræði frá HÍ og MS-próf í alþjóðasamskiptum frá Georgetown háskólanum í Bandaríkjunum var m.a. starfsmaður Útflutningsráðs Íslands og viðskiptafulltrúi í New York á árunum 1995-98. Þá var hún aðstoðarmaður í þremur ráðuneytum Geirs Haarde, fyrst sem fjármálaráðherra 2005-6, utanríkisráðherra 2005-6 og síðan sem forsætisráðherra 2006-7 en þá fór Ragnheiður á þing. Þá hefur hún átt sæti í fjölmörgum nefndum, m.a. Efnahags- og skattanefnd, iðnaðarnefnd, utanríkismálanefnd og Íslandsdeild Nato-þings þar sem hún var formaður.
Ragnheiður er dóttir Hólmfríðar Guðmundsdóttur sem er látin en hún starfaði um árabil í Sparisjóðnum í Keflavík og Árna Þórs Þorgrímssonar, flugumferðarstjóra.