Ragnheiður Elín vill bjarga sundhöll
Keflvíkingurinn og fyrrum ráðherrann Ragnheiður Elín Árnadóttir berst núna fyrir framtíð Sundhallar Keflavíkur. Ragnheiður hefur stofnað hóp á fésbókinni undir heitinu „Björgum Sundhöll Keflavíkur“.
„Þessi hópur er settur á laggirnar með það að markmiði að koma í veg fyrir niðurrif gömlu Sundhallarinnar í Keflavík, sem er ein þriggja bygginga í Reykjanesbæ sem teiknuð er af Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins. Tillaga þess efnis bíður afgreiðslu í umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar. Næsti fundur nefndarinnar er 13. febrúar þannig að mikilvægt er að vinna hratt og vel.
Þessi síða er opin öllum og verður vettvangur umræðu, upplýsinga og aðgerða og með því að gerast meðlimur í hópnum lýsir þú stuðningi við málstaðinn,“ segir í kynningu á síðunni.
Þegar þetta er skrifað eru ríflega 150 einstaklingar sem hafa gerst meðlimir á síðunni. Síðuna má nálgast hér!