Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ragnheiður Elín iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Ragnheiður Elín Árnadóttir er fyrsti ráðherra sem kemur úr Keflavík/Reykjanesbæ.
Miðvikudagur 22. maí 2013 kl. 21:32

Ragnheiður Elín iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Fyrsti Keflvíkingurinn sem verður ráðherra. „Hlakka mikið til“ segir Ragnheiður.

„Ég bíð óþreyjufull eftir að koma mér að verki í spennandi málaflokki og er auðvitað mjög ánægð með þetta ráðuneyti,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir í samtali við Víkurfréttir en hún mun verða iðnaðar- og viðskiptaráðherra í nýrri ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Ragnheiður er fyrsti Keflvíkingurinn sem gegnir ráðherraembætti en á síðasta ári gegndi Garðkonan Oddný Harðardóttir embætti fjármálaráðherra í síðustu ríkisstjórn. Ragnheiður segir að það sé vel við hæfi að hún fái ráðuneyti atvinnumála.


„Við töluðum um verðmætasköpun og atvinnumál í kosningabaráttunni og það vita allir hvað liggur fyrir hér á Suðurnesjum. Hvað þarf að gera. Við erum auðvitað að tala um verkefni eins og Helguvík, ferðaþjónustuna sem er orðin gríðarlega mikilvæg á Suðurnesjum og landinu öllu, iðnað og nýsköpun. Nú eru tækifærin. Nú þurfum við að koma okkur að verki. Ég hlakka rosalega til,“ sagði Ragnheiður Elín við Víkurfréttir.

Auk Ragnheiðar verður oddviti Framsóknar úr Suðurkjördæmi, Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðar-sjávarútvegs og umhverfisráðherra.
Það er því óhætt að segja að möguleikar Suðurnesja og Suðurkjördæmis séu miklir á komandi tímabili nýrrar ríkisstjórnar með tvo ráðherra í framlínunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024