Ragnar Ómarsson látinn
Ragnar Ómarsson matreiðslumaður er látinn, 51 árs að aldri. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut síðastliðinn föstudag. Morgunblaðið greinir frá andlátinu.
Ragnar útskrifaðist frá Hótel- og veitingaskóla Íslands árið 1994 eftir að hafa lært fagið á veitingastaðnum Glóðinni í Keflavík á árunum 1989-1993.
Hann átti eftir að starfa sem matreiðslumaður á veitingastöðum, meðal annars í Osló í Noregi og Monterey í Kaliforníu áður en hann sneri heim til Íslands.
Síðar starfaði hann sem yfirmatreiðslumaður á Hótel Holti, Leikhúskjallaranum og á veitingastöðunum SALT og DOMO. Undanfarin misseri hafði Raggi nýtt sérþekkingu sína á sviði matreiðslu í að endurræsa veitingastaði víða um land og gæða þá nýju lífi.
Ragnar vann til fjölda verðlauna á ferli sínum sem matreiðslumaður og var þannig valinn Matreiðslumaður ársins árið 1999, Matreiðslumaður Norðurlanda árið 2003 og hafnaði í öðru sæti í alþjóðlegu One World-keppninni í Suður-Afríku árið 2007. Þá var hann einnig í kokkalandsliðinu á sínum tíma og tók við starfi þjálfara árið 2006.
Raggi lætur eftir sig tvö börn, þau Maríu Lív og Oliver Snorra.