Rafsegulsvið ekki hættulegt íbúum
Geislavarnir ríkisins segja að rafsegulsvið í Grindavík frá sendimöstrunum á varnarsvæðinu við bæinn sé undir alþjóðlegum viðmiðum fyrir almenning. Geislun frá þeim sé því ekki hættuleg fyrir íbúa Grindavíkur.
Þetta kemur fram í svarbréfi Geislavarna til bæjaryfirvalda við ósk um yfirlýsingu vegna sendibúnaðar í Grindavík. Geislvarnir byggja svar sitt á grundvelli mælinga sem gerðar hafa verið á raf- og segulsviði frá fjarskiptamöstrunum.
Talsverðar áhyggjur höfðu komið fram á meðal bæjarbúa vegna fjarskiptamastranna í bæjarfélaginu og hugsanlegrar hættu sem af þeim kynni að stafa. Á fjölmennum íbúafundi í nóvember var skorað á ríkisstjórnina að láta fjarlæga kafbátamöstrin sem Bandaríkjaher lét reisa á sínum tíma skammt frá íbúabyggðinni. Óánægju bæjarbúa mátti einkum rekja til þess að ekki fengust nægar upplýsingar um það hvaða áhrif fjarskiptamöstrin hefðu á heilsu fólks.
---
Mynd: Þessar rákir frá möstrunum í Grindavík urðu tilefni vangaveltna um hugsanlega geislamengun.