Rafrænar Víkurfréttir ruku út í 13.000 eintökum
Rafræn útgáfa Víkurfrétta hitti heldur betur í mark hjá lesendum vf.is. Frá því á miðvikudag í síðustu viku og fram til dagsins í dag hefur nýjasta tölublað Víkurfrétta verið sótt 13.000 sinnum.
„Þetta er sprenging í aðsókn að rafrænu útgáfunni okkar og fólk kann greinilega að meta það sem við erum að gera,“ segir Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta.
Mikill vöxtur hefur verið í aðsókn að rafrænni útgáfu Víkurfrétta á þessu ári en blaðið hefur verið meira sótt rafrænt þegar veður hafa verið vond og tafir á dreifingu á prentuðu útgáfu blaðsins.
Nú eru færdæmalausir tímar og aðstæður með þeim hætti að ákveðið hefur verið að dreifa blaðinu frekar rafrænt til lesenda. Hér má skrá sig á póstlista og fá tilkynningu um nýjasta tölublaðið í tölvupósti.
Víkurfréttir í síðustu viku voru veglegar og í þessari viku er einnig myndarlegt blað í vinnslu hjá ritstjórn blaðsins. Blaðið verður stútfullt af viðtölum. Meðal annars munu nokkrir áhugaljósmyndarar á Suðurnesjum sýna lesendum sínar bestu myndir. Einnig er fjölbreytt annað efni og víða leitað fanga í efnisöflun.
Rafræn útgáfa felur í sér fleiri möguleika en sú prentaða. Þannig er hægt að birta myndskeið í rafrænu útgáfunni. Þá er möguleiki á að vera með lifandi auglýsingar. Gott dæmi um það er einmitt í síðasta blaði.
Rafræn útgáfa blaðsins fer í dreifingu á miðvikudaginn og því ennþá nægur tími til að koma að auglýsingum í Víkurfréttum í þessari viku. Póstfang auglýsingadeildar er [email protected].