Rafmagnslausri íbúð stungið í samband hjá nágranna
– eldhætta getur stafað af athæfinu.
Íbúi í fjölbýlishúsi í Reykjanesbæ dó ekki ráðalaus þegar lokað var fyrir rafmagn íbúðarinnar á dögunum. Íbúinn lagði framlengingarsnúru út um glugga og yfir í aðra íbúð í húsinu. Þar fær hann afnot af rafmagnstengli og er því aftur kominn með rafmagn á íbúðina sína.
Íbúi í húsinu hefur af þessu talsverðar áhyggjur enda getur stafað talsverð brunahætta af þessu athæfi, þegar jafnvel mörg heimilistæki eru komin inn á fjöltengi í eina innstungu. M.a. hefur verið haft samband við HS Veitur vegna málsins.
Hjá eldvarnaeftirliti Brunavarna Suðurnesja fengust þær upplýsingar að þar gætu menn ekkert aðhafst í málinu, jafnvel þó það gæti talist alvarlegt. Fulltrúi eldvarnareftirlitsins ætlaði þó að hafa samband við eiganda húsnæðisins en íbúðir í húsinu eru á vegum félagslega kerfisins í Reykjanesbæ. Ekki náðist í umsjónarmann félagslegra íbúða Reykjanesbæjar við vinnslu fréttarinnar.