Rafmagnlaust, hitalaust og „algert hrun á innviðum“
Í kjölfar rafmagnsleysis í á þriðju klukkustund á Suðurnesjum í dag kólnaði hratt í mörgum húsum þar sem þrýstingur fór af hitaveitu við rafmagnsleysið. Nokkrar klukkustundir tekur að keyra upp þrýsting á kerfum. Það er gert til að ekki verði tjón þegar þrýstingur kemst á að nýju.
Ástæða rafmagnsleysis var rakin til bilunar í eldingarvara við tengivirki Landsnets á Fitjum.
Ætla má að tjón vegna rafmagnsleysis síðdegis í dag megi telja í tugum milljóna króna, þar sem öll atvinnu starfsemi lagðist af í rafmagnsleysinu.
Keflavíkurflugvöllur var keyrður áfram á varaafli og þá var Heilbrigðisstofnun Suðurnesja einnig keyrð á díselrafstöð, sem og gagnaver á Ásbrú.
Íbúar á Suðurnesjum hafa lýst yfir óánægju sinni með ástandið á samfélagsmiðlum síðdegis og þar hefur Suðurnesjalína 2 verið til umræðu.
En það var ekki bara að rafmagn og hiti færi af Suðurnesjum. Netsamband hrundi einnig og jafnvel að illa gengi að hringja innan farsímakerfisins. Íbúi í Suðurnesjabæ var harðorður vegna þess ástands. „Þarna erum við að tala um algert hrun á innviðum og meiriháttar öryggismál,“ skrifar hann í færslu á Facebook þar sem ástandið var til umfjöllunar.