Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Rafmagn komið á Grindavík um loftlínu yfir hraunið
Frá lagningu loftlínunnar um nýliðna helgi: Ljósmyndir: Golli
Mánudagur 22. janúar 2024 kl. 23:52

Rafmagn komið á Grindavík um loftlínu yfir hraunið

Búið er að koma rafmagni til Grindavíkur um loftlínu sem reist var yfir nýja hraunið sem rann yfir Grindavíkurveg með þeim afleiðingum að stofnstrengir HS Veitna frá Svartsengi til Grindavíkur skemmdust. Rafmagn var komið á línuna kl. 20 í kvöld og í kjölfarið var slökkt á varavélum Landsnets.

Vinnuflokkar HS Veitna hafa unnið sleitulaust að því síðustu daga í samvinnu við Almannavarnir, Landsnet og HS Orku að halda rafmagni á Grindavík eftir að hraun fór yfir stofnlagnir milli Svartsengis og Grindavíkur í eldgosi sem hófst um þar síðustu helgi. Tókst að koma á rafmagni á bæinn á innan við tveimur sólarhringum frá því að eldgos hófst og var það gert með strengjum sem liggja undir heitu hrauninu. Annar strengur af tveimur gaf sig síðasta föstudag en í ljós kom að hinn strengurinn var enn í lagi og var því rafmagn aftur komið á bæinn skömmu síðar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á sama tíma var hafinn undirbúningur við að reisa loftlínu yfir hraunið því ekki var ljóst hversu lengi seinni strengurinn myndi duga undir heitu hrauninu. Fór svo snemma á sunnudagsmorgun að hann gaf sig endanlega. Varavélar Landsnets sáu bænum fyrir rafmagni þar til nýja loftlínan komst í gagnið í dag. Hefur hún fengið nafnið Sundhnjúkahraunslína 1.