Raflínurnar verða ofanjarðar - engin íbúakosning
Drög að viljayfirlýsingu sveitarfélagsins Voga og Landsnets varðandi lagningu háspennulína í sveitarfélaginu er trúnaðarmál, segir Róbert Ragnarson, bæjarstjóri í Vogum. Hann segist því ekki vilja tjá sig um viljayfirlýsinguna fyrr en fjallað hefur verið um hana í bæjarstjórn.
Mbl.is segir frá því í dag að samkvæmt yfirlýsingunni fallist bæjaryfirvöld á að raflínurnar verði ofanjarðar, sem er þvert á það sem fram kom á umræddum íbúafundi. Íbúar bæjarins fái því ekki að kjósa um málið.
Segja má að þessi niðurstaða hafi verið nokkuð ljós fyrir skemmstu þegar meirihutinn í bæjarráði Voga ákvað að draga samningsumboðið um fyrirhugaðar línulagnir út úr Suðurlindum.
Ekki náðist í Ingu Sigurúnu Atladóttur, oddvita minnihlutans, við vinnslu þessarar fréttar en í samtali við mbl.is segir hún skelfilegt að íbúar fái ekki að kjósa um málið. Sveitarfélög ráði yfir höfuð litlu um skipulagsmál þegar stórir fjárhagslegir hagsmunir séu annarsvegar og þrýstinguinn beri þau ofurliði.
Mynd/elg: Fjöldi bæjarbúa sýndi vilja sinn á dögunum með undirskriftum vegna málsins.