Rættist úr vertíðinni
Um 1170 tonn af loðnuhrognum hafa verið fryst hjá Saltveri á þessari vertíð samanborið við 1550 í fyrra. Vinnslu er nú að mestu lokið og loðnan lögst í hrygningu.
„ Útlitið var ekki gott í upphafi vertíðar þegar það gat alveg farið svo að engin loðna yrði veidd. Það rættist sem betur fer úr þessu. Við fengum 300 tonn úr vesturgöngunni í fyrra og það munaði um það magn núna. Þetta var dúndurvertíð meðan á henni stóð, en við unnum þetta magn á 10 dögum,“ sagði Þorseinn Erlingsson hjá Saltveri í samtali við VF. Hann segir loðnuna dyntótta og ekki bæti úr skák að fiskifræðingarnir séu það líka. Menn séu bara heppnir að fá yfir höfuð að veiða loðnu.
„Ef menn eru ekki að mæla á réttum stað á réttum tíma er bara gengið út frá því að stofnin sé hruninn. En það virðist engu að síður hafa gengið gríðarlegt magn af loðnu,“ segir Þorsteinn.
Mynd/elg: Þorsteinn Erlingsson við vinnslulínuna í Saltveri.