Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Rættist ágætlega úr sumrinu
Sunnudagur 15. ágúst 2010 kl. 10:00

Rættist ágætlega úr sumrinu


Sumarvertíðin fór seint af stað hjá ferðaþjónustuaðilum á Suðurnesjum en eldgosið í Eyjafjallajökli hafði áhrif á starfsemi þeirra eins og annarra ferðaþjónustuaðila í landinu. Eftir fremur rólegan júnímánuð fóru hjólin að snúast að nýju og hefur júlí verið nokkuð góður eða svo er að heyra á ýmsum ferðaþjónustuaðilum á svæðinu.
Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja, tekur undir þetta og segir ferðaþjónustuna á svæðinu geta nokkuð vel við unað. Vel hafi ræst úr málum og jafnvel megi búast við að vertíðin teygist eitthvað lengra fram á haustið þar sem hún fór seint af stað. Hann segir talsverða umferð hafa verið um svæðið síðustu vikur og ásókn í helstu náttúruperlur Suðurnesja hafi ekki verið mikið minni en á síðasta ári.

------


Bláa lónið:
Mikil aukning íslenskra gesta

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


„Sumarið fór aðeins seinna af stað hjá okkur en undanfarin ár og gætir þar áhrifa eldgossins í Eyjafjallajökli.  Heimsmeistarkeppnin í knattspyrnu hafði einnig áhrif en við urðum vör við mikla aukingu  bæði  innlendra og erlendra gesta að henni lokinni. Erlendum gestum okkar fækkar örlítið á milli ára en það er ánægjulegt  að segja frá því að heimsóknum Íslendinga fjölgaði mjög. Í júlí fjölgaði heimsóknum íslenskra gesta um 26 prósent á milli ára,“ segir Magnea Guðmundsdóttir, kynningarstjóri Bláa lónsins aðspurð um hvernig sumarið þar á bæ hefði komið út þar sem af er.


Áhersla á nýjungar


Að sögn Magneu hefur áhersla verið lögð á nýjungar og aukið vöruframboð. Nýr bar, sem staðsettur er ofan í Bláa Lóninu, hafi vakið mikla ánægju meðal gesta.  Baðgestir geta verslað út á inneign sem er á armböndunum sem afhent eru við komu. Á barnum er m.a.  boðið upp á frískandi orkuskot –stútfull af vítamínum.  Volcano Scrub „Eldfjallahreinsir“ og  Algae Mask „þörungamaski“ eru einnig á meðal nýjunga sem bjóðast nú baðgestum Bláa Lónsins. Vörurnar eru afhentar frosnar og látnar þiðna í lófunum áður en þær eru bornir á húðina.  Þær eru eingöngu fáanlegir á nýja barnum í Bláa Lóninu.
Volcano Scrub  inniheldur fínmalað vikur úr hrauninu sem umlykur Bláa Lónið. Vikurinn hreinsar og slípar húðina og veitir henni fallegt og heilbrigt yfirbragð. Algae Mask inniheldur Blue Lagoon þörunga en rannsóknir sýna að þörungarnir draga úr öldrun húðarinnar með því að draga úr niðurbroti á kollageni og örva kollagen myndun húðarinnar.


Nýir markaðir


Bláa Lónið hefur um árabil tekið virkan þátt í landkynningarstarfi  í samvinnu við stjórnvöld og  önnur lykilfyrirtæki innan ferðaþjónustunnar. Að sögn Magneu er Bláa Lónið á meðal styrktaraðila íslenska skálans á heimssýningunni sem nú fer fram í Shangahi í Kína. Hún segir Kínamarkað vaxandi og mjög spennandi markað fyrir íslenska ferðaþjónustu. 
Bláa Lónið var á meðal fyrirtækja sem tók þátt í viðskiptasendinefnd til Kína fyrr í sumar. Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, leiddi sendinefndina. „Við héldum blaðamannafundi og kynningar fyrir blaðamenn og ferðaskrifstofur bæði í Shanghai og í Beijing.  Áhuginn fyrir Íslandi er mikill og það verður spennandi að fylgjast með þessum markaði,“ sagði Magnea Guðmundsdóttir.
----

Ferðaþjónustan Alex:
Sumarið í samræmi við væntingar


„Við berum okkur bara nokkuð vel. Þetta hefur gengið vel í sumar og í samræmi við væntingar,“ sagði Alexander Guðmundsson hjá ferðaþjónustunni Alex þegar hann var inntur eftir því hvernig sumarið hefði komið út hjá þeim.
Hann neitar því ekki að það hafi farið aðeins um hann meðan á eldgosinu stóð. „Eftir að því lauk hefur maður ekki haft ástæðu til að kvarta. Bókanir tóku fjótlega við sér og hlutirnir fóru á fullt aftur“.


Ferðaþjónustuaðilar horfa með nokkurri bjartsýni til haustsins.Þar sem sumarvertíðin hafi farið seint af stað sé ekki ólíklegt að hún vari lengur fram á haustið, t.d. vegna hópa sem frestuðu för sinni til Íslands við eldgosið í stað þess að hætta við. Þetta eru t.d. hópar sem ætluðu í svokallaðar hvataferðir.
Haft er eftir ferðamálastjóra að þegar á allt sé litið megi ferðaþjónustan vel viðuna. Það skipti máli hvernig haustið verði en það sé alls ekki óraunhæft að gera ráð fyrir að fjöldi ferðamanna í ár verði mjög svipaður og í fyrra.
Alexender bindur vonir við gott haust í ferðaþjónustunni, þó það sé óráðið.


„Undanfarin ár hefur þetta verið nokkuð gott vel fram í september. Þegar kemur fram á haustið eru kúnnarnir rólegri yfir því að panta með miklum fyrirvara því þeir vita að þá er ekki sami hamagangurinn og yfir sumarmánuðina. Þannig að þetta er eitthvað sem kemur bara í ljós þegar þar að kemur. Það er mín reynsla,“ segir Alexander.
Hann segir nýtingu á gistirýminu og tjaldsvæðinu hafa verið mjög góða undanfarið. Tjaldsvæðið hefur komið vel út í sumar en áberandi sé hversu margir hjólaferðalangar sæki landið heim. „Að mörgu leiti finnst mér þetta sumar hafa verið sambærilegt við önnur sumur undanfarin ár,það er óhætt að segja það. Það hefur verið góður taktur í því. Sem betur fer varði þetta eldgos ekki lengur svo sumarið fór ekki í vaskinn.“