Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Rætt um yfirtöku Reykjanesbæjar á gatnakerfi Vallarsvæðisins
Miðvikudagur 3. október 2007 kl. 13:23

Rætt um yfirtöku Reykjanesbæjar á gatnakerfi Vallarsvæðisins

Viðræður standa nú yfir um yfirtöku Reykjanebæjar á gatnakerfi gamla varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli. Unnið er að heildarmati á gatnakerfi svæðisins og kostnaðarútreikningum í því sambandi, miðað við að gatnagerðargjald standi undir þeim kostnaði sem vinna þarf. Ljóst er að töluvert vantar uppá að gatna- og samgöngukerfi svæðisins sé fullnægjandi og fé frá ríkinu þarf að fylgja yfirtökunni svo hægt sé að koma umferðarkerfi svæðisins í sambærilegt horf og neðan girðingar.

Þetta kemur fram í svörum bæjarstjóra við formlegri fyrirspurn Guðbrands Einarssonar, bæjarfulltrúa A-lista um þann kostnað sem fellur á Reykjanesbæ vegna nýrrar byggðar á gamla varnarsvæðinu, s.s. vegna skóla, leikskóla, sorphirðu og fleira. Þá er spurt hverjar séu fyrirsjáanlegar tekjur Reykjanesbæjar af þessari byggð.

Í svörunum kemur fram að kostnaður vegna íbúðabyggðarinnar liggur ekki fyrir. Erfitt sé að áætla tekjuaukningu vegna útsvars og tekjur frá Jöfnunarsjóði fyrr en tekjusamsetning íbúa liggi fyrir.

Þá kemur fram að framlag til grunnskólans er tæpar 25 milljónir miðað við núverandi barnafjölda á svæðinu og greiðslur til leikskólans eru 66 milljónir. Alls eru nú 72 börn í leikskólanum og 40 í grunnskólanum.

Tekjur af fasteignagjöldum á þessu ári nema tæpum 14 milljónum króna, sem eru tekjur af eignum á Tæknivöllum. Fasteignagjöld greiðast ekki af íbúðarhúsnæði fyrr en það er komið í not eða leigu en aðeins fyrstu eignirnar eru komnar í Landsskrá fasteigna. Greiðsla fasteingagjalda fer því alfarið eftir því hvernig nýting íbúða verður á svæðinu. Um áramótin munu því endanlega tölur liggja fyrir, segir í svörum bæjarstjóra.

Mynd: Horft yfir gamla varnarsvæðið. Ljósm: Oddgeir Karlsson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024