Ræddu framtíð líknarsjóðs
Framtíð líknarsjóðs Ytri-Njarðvíkurkirkju var meðal þess sem rætt var á aðalsafnaðarfundi sóknarinnar um síðustu helgi. Fjárreiður líknarsjóðsins hafa verið til athugunar hjá Kirkjuráði eftir að Kvenfélag Njarðvíkur kvartaði þangað því matarkort sem félagið gaf sjóðnum virtust ekki skila sér til bágstaddra.
Í bréfi sóknarprests Njarðvíkurprestakalls, Baldurs Rafns Sigurðssonar, til sóknarbarna, sem birt var í Víkurfréttum þann 30. janúar síðastliðinn kom fram að kort frá Kvenfélaginu hafi verið 100 talsins og hvert að upphæð 20.000 krónur. Í bréfinu kom fram að upphæðin hafi í sumum tilvikum þótt of há og þeim því skipt út þannig að fyrir hvert kort fengust fjögur kort að verðmæti 5.000 krónur. Á aðalsafnaðarfundinum lagði fulltrúi kvenfélagsins fram fyrirspurn um það hver hefði ákveðið að skipta kortunum og kom fram í svari prestsins að það hafi verið hann sem tók þá ákvörðun. Þá var rætt um framtíð líknarsjóðsins og voru þær hugmyndir ræddar að breyta fyrirkomulagi hans, annað hvort með því að mynda stjórn um sjóðinn eða að leggja hann niður. Í dag hefur sóknarpresturinn umsjón með sjóðnum.