Ræða við ríkið um byggingu á nýjum fjölbrautaskóla í tengslum við húsnæðismál Myllubakkaskóla
Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, hefur verið falið að hefja samtal við ríkið vegna mögulegrar byggingar nýs fjölbrautaskóla. Verkefnastjórn hefur unnið að málinu. Sviðsstjóra umhverfissviðs falið að vinna áfram í kostnaðaráætlun vegna endurbóta Myllubakkaskóla og að leggja þær upplýsingar fyrir fund bæjarráðs 25. ágúst 2022. Þetta kom fram á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar í gær.
Fyrirhugaðar endurbætur á Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ munu kosta sveitarfélagið um fjóra milljarða króna. Þetta staðfestir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar í samtali við Morgunblaðið sl. mánudag.
Húsnæði Myllubakkaskóla var einnig til umræðu á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar 4. ágúst síðastliðinn. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, fór yfir verkefnastöðu og kostnaðarmat framkvæmda við Myllubakkaskóla. Á fundinum lagði Margrét A. Sanders, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðisflokksins:
„Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt vegna myglu í Myllubakkaskóla að fara vel yfir hvaða leið skuli fara í við endurgerð skólans.
1. Byggja að hluta til nýtt húsnæði og endurgera að hluta til eldra húsnæðið eins og áætlað er. Núverandi kostnaðarmat er um 4 milljarðar
2. Byggja nýjan skóla í heild sinni sambærilegan þeim sem fyrirliggjandi teikningar gera ráð fyrir. Sérstakt kostnaðarmat liggur ekki fyrir.
Áður en ákvörðun er tekin þarf að koma fram, með óyggjandi hætti, í hvernig ástandi sá hluti skólans er sem ekki er áætlað að rífa. Auk þess þarf að liggja fyrir kostnaður nýbyggingar á skólanum í heild sinni samkvæmt fyrirliggjandi teikningum til samanburðar svo meta megi hvort ráðast eigi í endurbæturnar eða byggja nýjan skóla frá grunni.“
Undir bókunina skrifa þau Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Helga Jóhanna Oddsdóttir.