Ræða við ESA um atvinnumál á Suðurnesjum
Íslensk stjórnvöld munu í næstu viku eiga fund með Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) þar sem sérstök áhersla verður lögð á atvinnumál á Suðurnesjum þegar rætt verður um málefni gagnavers á Ásbrú og hvaða þýðingu uppbygging gagnavers mun hafa á svæðinu. Þetta kom fram í máli Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á opnum fundi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ í gær. Sagði hún að niðurstaða ESA ætti að liggja fyrir í júní.
Forsvarsmenn gagnaversins hafa upplýst iðnaðarráðuneytið um að vel gangi að afla viðskiptavina fyrir gagnaverið en öllu máli skipti að fá jákvæða niðurstöðu hjá ESA svo fjármögnun verkefnisins gangi eftir.
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í nóvember sl. að hefja formlega rannsókn á stuðningi íslenska ríkisins og Reykjanesbæjar við fyrirtækið Verne Holdings ehf. í tengslum við byggingu gagnavers í Reykjanesbæ.
Fram kemur á vef ESA, að eftir forathugun málsins hafi stofnunin efasemdir um að ríkisaðstoð sú, sem felist í fyrirhuguðum undanþágum frá sköttum og gjöldum til ríkis og sveitarfélags, samrýmist EES samningnum.
Íslensk yfirvöld tilkynntu ESA hinn 1. september 2010 um að ríkið og Reykjanesbær hygðust veita Verne aðstoð til að byggja upp gagnaverið og vísuðu til undanþágureglna EES samningsins um byggðaaðstoð. Alþingi samþykkti í júní 2010 lög, sem heimila íslenskum yfirvöldum að ganga til fjárfestingasamnings við Verne sem myndi veita félaginu undanþágu frá ýmsum sköttum og gjöldum.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á opnum stjórnmálafundi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ í gærmorgun. VF-mynd: Hilmar Bragi