Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ræða Sparisjóðsstjóra: Fall viðskiptabankanna og breytt hugmyndafræði er tækifæri sparisjóðanna
Miðvikudagur 22. apríl 2009 kl. 22:37

Ræða Sparisjóðsstjóra: Fall viðskiptabankanna og breytt hugmyndafræði er tækifæri sparisjóðanna

Aðalfundur Sparisjóðsins í Keflavík 22. apríl 2009
Úrdráttur úr ræðu Geirmundar Kristinssonar sparisjóðsstjóra

Frá því á síðasti aðalfundi sparisjóðsins sem var haldinn 11. mars í fyrra höfum við upplifað miklar hamfarir í efnahagsmálum sem ekki sér fyrir endann á ennþá. Alþjóða fjármálakerfið hefur orðið fyrir verulegum skakkaföllum og nær allt íslenska bankakerfið hefur hrunið ef undan eru skildir örfáir sparisjóðir og nokkur önnur minni fjármálafyrirtæki.
Á síðasta aðalfundi fjallaði ég um aðsteðjandi lausafjárvanda og greindi frá erfiðleikum við erlenda lánsfjármögnun. Ýmis hættumerki voru augljós og greindi ég frá áhyggjum mínum á yfirvofandi lausafjárkreppu. En engan gat órað fyrir því, sem átti eftir að dynja yfir okkur. Erlent lánsfé hvarf á svipstundu og íslenska útrásin breyttist í nauðvörn á heimavelli.
Ársins 2008 verður vafalaust minnst sem árs alþjóðlegra efnahagshamfara. Einkenna alþjóðlegrar fjármálakreppu var að vísu farið að gæta árið 2007 en árið 2008 skall hún á okkur með fullu afli og áhrifa kreppunnar mun gæta um nokkurn tíma.  Svartsýnustu hagspekingar og fjármálasérfræðingar sjá jafnvel fyrir sér að kreppan muni hrella heimsbyggðina í heilan áratug. Ljóst er að ekki er komið að lokum hennar og mun viðbragðsáætlun stjórnvalda og björgunaraðgerðir koma til með að ráða miklu um framhaldið.
Undanfarin ár hafa einkennst af hugsunarhætti sem snerist um gróða, hraða og stærð. Bankar og fjármálastofnanir voru lykilverkfæri í leikfléttum útrásar og óheftrar gróðahyggju. Það var flott að vera ofurríkur og eiga allt og gera allt sem hægt er að kaupa fyrir peninga. Ríkidæmi Íslendinga var hins vegar að miklum hluta byggt fyrir lánsfé og ráðist í fjárfestingar um víðan völl sem aldrei gátu borgað sig. Eftir á að hyggja hefði almenn skynsemi átt að geta sagt okkur að það kæmi að skuldadögum um síðir.
Sparisjóðir áttu ekki mikinn hljómgrunn í þessu andrúmslofti og hafa átt undir högg að sækja. Sótt hefur verið að þeim úr öllum áttum, frá regluverkinu, eftirlitsiðnaðinum, keppinautum og „ofursnjöllum fjárfestum“. Um mitt ár 2008 leit út fyrir að nálægt 80% af rekstri sparisjóða í landinu myndi renna inn í viðskiptabankana fyrir áramót og eftir stæðu smáir landsbyggðarsparisjóðir með samanlagt vel innan við 5% markaðshlutdeild í einstaklingsviðskiptum innanlands og langt undir 1% af heildarútlánum bankakerfisins. Þetta var ekki björt mynd og fáum duldist að tími sparisjóða væri að renna út.
En skjótt skipast veður í lofti og skuldadagar eru runnir upp.. Hugmyndafræði síðasta áratugar hefur beðið alvarlegt skipbrot og skyndilega eru sparisjóðirnir orðnir framtíð ekki síður en saga. Við þurfum að bregðast við kallinu, straumlínulaga starfsemina, sýna mikið aðhald í rekstri og byggja upp öflugan sparisjóð til framtíðar.
Fyrstu merki fjármálakreppunnar alþjóðlegu er hægt að rekja til taps Bear Stearns á fjárfestingum í skuldabréfavafningum í júní 2007. Strax í ársbyrjun  2008 var síðan orðið ljóst að kreppan var ekki eingöngu bandarísk undirmálslánakrísa heldur teygði hún anga sína um allan heim. Breski bankinn Northern Rock var þjóðnýttur af breskum stjórnvöldum í febrúar 2008 og þann 14. september  upplifðu Bandaríkin stærsta gjaldþrot sögunnar þegar bankarisinn Lehman Brothers féll.  Í kjölfarið féll fjöldinn allur af bönkum og fjárfestingafélögum víða um heim. Ísland sogaðist inn í þennan hvirfilbil í byrjun október þegar allir stóru íslensku bankarnir voru teknir yfir af íslenskum stjórnvöldum og krónan féll eins og steinn samhliða því sem markaður með hlutabréf varð að engu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Neyðarlög
Í upphafi október var svo komið að stjórnvöld sáu sig knúin til að setja neyðarlög sem kváðu á um að við sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta.
Samkvæmt lögunum er fjármálaráðherra heimilt að leggja sparisjóði til fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé hans. Í viðmiðunarreglum sem fjármálaráðherra setti er kveðið á um að þessi viðmiðun eigi við um eigið fé eins og það var í árslok 2007. Ríkissjóður fær stofnfjárbréf í sparisjóðnum sem endurgjald í samræmi við fjárframlagið. Fjárhæð útgefinna stofnfjárhluta til ríkissjóðs skal að nafnverði nema sömu upphæð og það fjárframlag sem innt er af hendi og skal það stofnfé njóta sömu stöðu og aðrir stofnfjárhlutir í viðkomandi sjóði. Ríkissjóður myndi því í raun kaupa nýtt stofnfé á uppfærðu nafnverði eins og við þekkjum það. Ef stjórn sparisjóðs samþykkir, er heimilt að víkja frá ákvæðum 66. gr. laga um fjármálafyrirtæki um boðun fundar stofnfjáreigenda og forgangsrétt þeirra til aukningar stofnfjár eða hlutafjár.
Markmiðið með þessu ákvæði er að tryggja sparisjóða¬starfsemina í landinu, ef þörf reynist á styrkingu eiginfjárhlutfalls vegna sérstakra aðstæðna á fjármagnsmarkaði.
Ef ríkissjóður kaupir stofnfé þá má gera ráð fyrir að eignarhlutdeild fari yfir þau 10% mörk sem eru á leyfilegu eignarhaldi að stofnfé í sparisjóðum. Þetta ákvæði um hámark á eignarhluta í sparisjóði á ekki við um ríkissjóð þegar umræddri heimild er beitt. Sömuleiðs þykir eðlilegt að fjármálaráðherra fari fyrir hönd ríkissjóðs með atkvæði í samræmi við stofnfjáreign sína. Um er að ræða undantekningu frá því að stofnfjáreigendum sé aldrei heimilt, fyrir sjálfs síns hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði.
Í neyðarlögunum er einnig ákvæði er heimilar Íbúðalánasjóði að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja, sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði. Ekki þarf að leita samþykkis skuldara fyrir slíkri yfirfærslu. Ráðstöfun sem þessi getur verið þáttur í nauðsynlegum aðgerðum við endurskipulagningu rekstrar fjármálafyrirtækja og er til þess fallin að liðka fyrir fjármögnun.
Samskiptin við stjórnvöld.
Það þarf ekki að orðlengja það að eftir bankahrunið sátu sparisjóðirnir eftir verulega laskaðir.
Það var því ljós í myrkrinu þegar umrædd neyðarlög litu dagsins ljós og sparisjóðirnir töldu að Alþingi hefði gefið skýra og sérstaka yfirlýsingu um að hlú skyldi sérstaklega að sparisjóðastarfseminni í því gerningaveðri sem framundan væri.
En hvílík bjartsýni. Nánast ekkert af innihaldi neyðarlaganna sem átti að gagnast sparisjóðunum er komið til framkvæmda, nú hálfu ári síðar nema ef vera kynni samningur sem náðist á milli Sparisjóðsins í Keflavík og Íbúðarlánasjóðs um sölu fasteignabréfa sjóðsins. Reyndar hægt að skrifa heila bók um þá píslargöngu sem þurfti til að ljúka þeim samningi, og mun ég gera grein fyrir henni síðar.
 20 % framlagið er ekki komið inn í einn einasta sparisjóð, þrátt fyrir að þeir flestir hafi sótt um.
Það virðist einfaldlega vera mikil tregða að láta af hendi þessa átján milljarða sem sparisjóðirnir þurfa á að halda til að tryggja rekstrargrundvöll þeirra. Ráðherrar hafa það á orði að hér sé um skattpeninga fólksins að ræða og ekki hægt að setja þá í hvað sem er. Hvaða peningar skyldu hafa farið í Viðskiptabankana þrjá, Saga Capital og VBS, trúlega einhverjir allt aðrir peningar.
Ekki virðist vera fara eftir þeim lögum sem Alþingi samþykkti samhljóða í október sl. og áttu að tryggja öryggi sparisjóðastarfseminnar. Skýrar viðmiðunarreglur voru settar um framlagið í desember sl. en þrátt fyrir þetta gerist lítið. Fátt er um svör hjá ráðamönnum og einungis er hægt að geta sér þess til að sjónarmið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða annarra ráðgjafa stjórnvalda ráði ferðinni fremur en vilji Alþingis. Eða að búið sé að ákveða að láta sparisjóðunum blæða út, enda held ég að það gerist ef ekki verði að gert mjög fljótlega.



Sparisjóðamál
Afdrif Sparisjóðabankans urðu nokkuð óvænt, og hafa valdið miklum erfiðleikum í sparisjóðakerfinu enda hefur bankinn gengt lykilhlutverki í greiðslumiðlun fyrir Sparisjóðina. Eins og mönnum er vafalaust í fersku minni gengdi bankinn því að útvega lausafé frá Seðlabankanum til viðskiptabankanna þriggja í gegnum hin svokölluðu repo viðskipti. Bankinn fékk semsagt lán frá Seðlabankanum og endurlánaði til viðskiptabanka. Við þrot þeirra ákvað FME að þessar skuldir skyldu verða eftir í gömlu bönkunum og þar með var sagt að þær yrðu ekki greiddar. Bankinn hefur síðan verið í samningum við bæði ríki og erlenda lánadrottna um lausn, og töldum við þá samninga vel á veg komna þegar Seðlabankinn og FME tóku ákvörðun um að setja hann í greiðslustöðvun.
Þess má geta í framhaldi af þessu að minnsta kosti tvö innlend fjármálafyrirtæki hafa síðan fengið samninga við ríkið um repo skuldirnar, en þar á ég við Saga Capital og VBS sem gerðu samning við ríkið um lán að fjárhæð nálægt 40 milljörðum á mjög lágum vöxtum, og gátu þess vegna fært upp eigið fé sitt um einhverja milljarða.
Ég gat þess að þessi ákvörðun hefði valdið miklum erfiðleikum hjá sparisjóðunum, enda er greiðslumiðlun þeirra í algjörri upplausn þessa daganna. Það er verið að reyna að kaupa þennan rekstrarþátt út úr bankanum en mjög erfitt reynist að sannfæra Seðlabankann og FME um nauðsyn þess. Í allan þann tíma sem rekstrarörðugleikar bankans stóðu yfir hélt Seðlabankinn því fram statt og stöðugt að þessi þáttur í rekstri hans væri alls ekki eins mikilvægur og sparisjóðirnir vildu halda fram. En þegar upp var staðið réði Seðlabankinn ekki við neitt og eru þessa daganna að reyna að klóra sig út úr þessu í krafti valds síns.
Sama dag og Sparisjóðabankanum var lokað, gerðist það sama hjá Spron en þeir höfðu staðið í svipuðum samningum og Sparisjóðabankinn.
Stofnfjárbréfamarkaði Sparisjóðsins í Keflavík var lokað í kjölfar tilkynningar um sameiningarviðræður Sparisjóðsins, Byrs og Spron. Markaðurinn hafði þá verið virkur frá opnun hans í janúar 2007 þar til um mitt síðasta ár þegar verulega fór að hægja á verðbréfamörkuðum almennt og fóru síðustu viðskiptin fram í júní 2008.
Nefnd sem fyrrverandi viðskiptaráðherra skipaði á haustmánuðum 2007 til að taka ákvæði laga um sparisjóði til endurskoðunar hefur enn ekki skilað áliti, en nú hafa komið skilaboð frá stjórnvöldum þess efnis að stefnan

sé sú að sparisjóðir verði til framtíðar eingöngu stofnfjársjóðir, og nefndinni ætlað að skila áliti í samræmi við það.

Horfur
Útlánaskoðun  Fjármálaeftirlitsins  fyrri hluta marsmánaðar leiddi til enn frekari niðurfærslu á útlánaeignum en drög að ársuppgjöri höfðu gert ráð fyrir. Við reikningsskilin um áramót hefur að fullu verið tekið tillit til þeirra ábendinga sem þýðir að í ársreikningi er eiginfjárhlutfall komiðundir hið lögboðna 8% hlutfall. Aðgerðaáætlun til að bæta eiginfjárhlutfallið hefur verið hrint í framkvæmd og Fjármálaeftirlitinu hefur verið gerð grein um hvaða ráðstafana verður gripið til.
Aðgerðirnar snúast m.a. um að laga gjaldeyrisjöfnuð Sparisjóðsins, en með setningu reglugerðar 1130 frá 15. desember 2008 voru afleiðuviðskipti þar sem króna er í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðlum óheimil. Afleiðing af þessari lagasetningu var að gjaldeyrisjöfnuður varð ójafn. Unnið er að því að færa útlán á milli gjaldmiðla og hefur töluverður ávinningur náðst nú þegar sem hefur beint áhrif á eiginfjárhlufall Sparisjóðsins. Við þessar breytingar eykst eiginfjárhlutfallið um 0,92% og verður 7,98%. Sparisjóðurinn hefur einnig fengið vilyrði fyrir víkjandi láni að fjárhæð 350 milljónir sem styrkir eiginfjárgrunn sjóðsins. Þessar aðgerðir munu laga eiginfjárhlutfallið sem nemur 0,38% sem þýðir að Sparisjóðurinn nær þá 8,36% eiginfjárhlutfalli. Þessu til viðbótar hefur stjórn Sparisjóðsins í Keflavík sótt um aðstoð frá ríkinu byggt á neyðarlögunum nr. 125/2008 sem sett voru í október 2008. Með þessum aðgerðum og framlagi ríkisins myndi eiginfjárhlutfall Sparisjóðsins lagast sem nemur 5,47% og verða 13,83%.
Eins og staðan er í dag er það gjaldeyrisójöfnuðurinn sem getur haft hvað mest áhrif á eiginfjárhlutfallið, og er það mjög mikil áhættuþáttur í rekstri að hafa ekki gjaldeyrisvarnir eins og ég gat um áðan. Við höfum óskað formlega eftir gjaldeyrisvörnum frá Seðalabankanum og verið hafnað, síðan höfum við óskað eftir gjaldeyriskiptasamningi við ríkið en ekki fengið svar ennþá, en vonumst til að það komi á allra næstu dögum. Ef ekki þá verður að breyta öllum erlendum lánum í krónur.
Mikil óvissa er um þróun og horfur á næstu misserum. Því er erfitt að spá fyrir um það með vissu hversu hátt eiginfjárhlutfall er nauðsynlegt hjá fjármálafyrirtæki til að mæta þeim erfiðleikum sem framundan eru í íslensku efnahagslífi. Sparisjóðurinn verður að teljast frekar vel í stakk búinn að því leyti. Sparisjóðurinn í Keflavík er öflug stofnun með sterka markaðshlutdeild á Suðurnesjum, Vestfjörðum, Snæfellsnesi og í Húnaþingi.
Gripið hefur verið til verulegra aðhaldsaðgerða í rekstri og m.a. hafa æðstu stjórnendur og verulegur hluti starfsmanna gefið eftir hluta launa sinna. Þá hefur störfum fækkað sem nemur 22 stöðugildum á síðastliðnum 12 mánuðum. Gengið verður enn lengra í aðhaldsaðgerðum á næstunni.


Samningur milli sparisjóðsins og Íbúðalánasjóðs var undirritaður í mars um að sparisjóðurinn selji Íbúðalánasjóði safn skuldabréfa, að fjárhæð um 10 milljarðar króna, tryggt með veði í íbúðarhúsnæði í samræmi við heimild til slíkra kaupa skv. lögum nr. 125/2008, reglugerð nr. 1081/2008 og reglur Íbúðalánasjóðs um kaup á skuldabréfum fjármálafyrirtækja. Íbúðalánasjóður greiddi 80% af uppreiknuðu virði safnsins og eftirstöðvarnar, eða 20%, er krafa sparisjóðsins á Íbúðalánasjóð sem kemur til með að verða gerð upp að 8 árum liðnum.
Samningar hafa náðst við erlenda lánadrottna en sparisjóðurinn skuldar nú tvö erlend sambankalán að fjárhæð 49 milljónir evra. Gjalddagi var á öðru láninu þann 27. mars og náðist samkomulag um að greiða hluta lánsins á gjalddaganum og framlengja hluta. Næsti stóri gjalddagi á erlendu láni er í maí 2010.
Ljóst er að fjármögnun sjóðsins verður að mestu í formi innlána næstu misserin. Skuldabréfamarkaður með bankabréf er ekki lengur fyrir hendi né millibankamarkaður með lán. Sparisjóðurinn í Keflavík hefur á síðastliðnum 10 mánuðum greitt um 15 milljarða króna af sínum skuldum til erlendra og innlendra fjármálastofnanna.
Áætlanir sparisjóðsins taka mið af þeim erfiðu aðstæðum sem framundan eru. Sjóðurinn stóð sterkum fótum áður en áföll dundu yfir í október og hann á því eftir talsverðan hluta eigin fjár síns og starfsemi hans hefur verið ótrufluð að mestu. Stjórn sjóðsins telur því að áætlanir séu bæði trúverðugar og líklegar til þess árangurs að geta haldið áfram þeirri starfsemi sem verið hefur til heilla fyrir viðskiptavini vítt og breitt um landið.
Viðskiptabankarnir eru komnir í þrot, sparisjóðirnir lifa þó laskaðir séu og almenningur og stjórnmálamenn sjá að ábyrg starfsemi og samfélagsleg ábyrgð sparisjóða er mikilvæg og beri því að vernda, að minnsta kosti kemur þetta fram í orði þó ekki sé á borði ennþá eins og ég vék að fyrri í ræðu minni. Hógværð og ábyrgð eru aftur orðnar dyggð og fólk flykkist því til sparisjóðanna og heilu samfélögin taka höndum saman um að standa vörð um sinn sparisjóð.


Eins dauði er annars brauð eins og máltækið segir. Fall viðskiptabankanna og breytt hugmyndafræði er tækifæri sparisjóðanna með óverulegri aðstoð.  Sparisjóðirnir hafa góðan möguleika á að komast heilir í gegnum bankakreppuna og verða lykilaðilar í að endurbyggja trú og traust bæði íslendinga og útlendinga á íslenskt bankakerfi.
Ákvarðanir sem verða teknar á næstu vikum af stjórnvöldum og eftirlitsaðilum munu móta framtíð sparisjóðanna á Íslandi til næstu áratuga. Það er gríðarlega mikilvægt að þær ákvarðanir verði vel ígrundaðar og teknar með hagsmuni landsins, nærsamfélagsins og sparisjóðsins í huga. Sparisjóðirnir geta auðveldlega orðið leiðandi afl á íslenskum bankamarkaði í náinni framtíð ef vilji er fyrir hendi.
Frá því að fjármálaheimurinn okkar hrundi í október hefur staða sparisjóðanna verið óviðunandi. Þá er ég ekki að meina fjárhagsstöðu einstakra sparisjóða heldur þá staða okkar á innlendum fjármálamarkaði. Við höfum þurft að standa af okkur áhlaupið óstudd af stjórnvöldum á meðan ríkisbankarnir stóru hafa verið í sóttkví. Bara hér í Reykjanesbæ höfum við í Sparisjóðnum þurft að etja kappi við þá alla og þarf ekki frekari útlistana við til að benda á hversu óheilbrigð sú samkeppnisstaða er. En við höfum staðið okkur í þessari baráttu og höfum gert það með dyggum stuðningi sveitarfélaga, viðskiptavina og ekki síst öflugs starfsfólks. Ber að færa þeim miklar þakkir fyrir óeigingjarnt og fórnfúst starf á erfiðum tímum.
Við stöndum núna frammi fyrir því að framtíð Sparisjóðsins í Keflavík er ekki eingöngu á okkar ábyrgð. Stjórnvöld og eftirlitsstofnanir hafa fjöregg okkar í sínum höndum og geta með einni ákvörðun skilið milli feigs og ófeigs. Með lögbundnu framlagi ríkisins skv. neyðarlögunum yrði CAD hlutfallið nær 14% og við getum starfað með eðlilegum hætti um fyrirsjáanlega framtíð. En ef frekari dráttur verður á framlaginu þá lendum við í þeirri aðstöðu að geta illa sinnt okkar viðskiptavinum. Afleiðingarnar gætu síðan þýtt enn frekari afskriftir og veikingar á okkar efnahag.