Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ráðuneytið vill rekstur skurðstofu í hendur annarra en HSS
Föstudagur 21. nóvember 2008 kl. 17:28

Ráðuneytið vill rekstur skurðstofu í hendur annarra en HSS

 
Í ljósi fjölmiðlaumræðu undanfarinna daga um fyrirhugaðan niðurskurð á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) er rétt að taka eftirfarandi fram. Stofnuninni hefur, eins og öðrum heilbrigðisstofnunum, borist erindi frá heilbrigðisráðuneyti með beiðni um tillögur að 10% sparnaði í rekstri. Samkvæmt tilmælum frá fjármálaráðuneyti eiga tillögurnar að liggja fyrir í dag, föstudaginn 21. nóvember.
 
Í september sl. hóf heilbrigðisráðuneytið vinnu sem fólst í úttekt á rekstri HSS. Vitað var að íbúafjöldaaukning á Suðurnesjum hefur verið ein sú mesta á landinu undanfarin ár. HSS hefur átt í viðræðum við ráðuneytið um endurskoðun á reiknilíkani því sem notað er við útreikninga á fjárveitingum. HSS telur að líkanið taki ekki nægilega mikið tillit til þessarar aukningar.   Vinnan við ofangreinda úttekt byggðist á sérstakri skoðun á rekstrarlegum og stjórnunarlegum þætti starfseminnar og tillögum um hvað mætti færa til betri vegar.
 
Helstu atriði úr niðurstöðum úttektarinnar voru fyrir nokkru kynntar forstjóra HSS og lagt til að hefja úrbætur þegar í stað. Tillögurnar fela meðal annars í sér breytingar á rekstrargrunni fyrir stofnunina vegna fólksfjölgunar á svæðinu, en einnig tilteknar breytingar á stefnu og skipulagi sem felast í því að færa rekstur skurðdeildar út úr HSS til annarra aðila sem sinntu þjónustunni, hvort heldur í húsnæði HSS eða á höfuðborgarsvæðinu. Jafnhliða þessu þyrfti að breyta þjónustu fæðingadeildar HSS þannig að allar áhættufæðingar yrðu færðar til LSH.
 
Tillaga um breytingar á skurðdeild HSS kemur fram í ljósi þess að skurðstofur í Reykjavík og nágrenni eru þegar of margar og skurðdeild HSS hefur ekki verið að fullu nýtt frá því að hún var opnuð. Kostnaðarsamt er að halda úti fullri þjónustu á slíkum deildum ef ekki eru tryggð næg verkefni. Í ljósi þess rekstrarvanda sem stofnunin hefur átt við að glíma er einsýnt að í þessu sambandi er breytinga þörf, segir í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024