Ráðstefna um jákvæða líkamsmynd haldin í Hljómahöll
-Samstarf Kaupfélagsins og MSS
Í tilefni af 70 ára afmæli Kaupfélags Suðurnesja stendur félagið, í samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, fyrir ráðstefnu um jákvæða líkamsmynd í Hljómahöll þann 13. ágúst 2015 en sá dagur er stofndagur KSK.
Ráðstefnan er opin öllum en á sérstakt erindi til fagfólks á öllum skólastigum, svo sem kennara, skólastjórnenda, námsráðgjafa, sálfræðinga, félagsráðgjafa, tómstundafulltrúa, þjálfara og annarra sem koma að uppeldi og vellíðan barna og unglinga.
Aðalfyrirlesari er Martin Persson, virtur rannsakandi á sviði líkamsmyndar, Sigrún Daníelsdóttir, sálfræðingur og höfundur bókarinnar Kroppurinn er kraftaverk fjallar um líkamsvirðingu og feðginin Hermann Jónsson og Selma Hermannsdóttir segja frá reynslu sinni en þau hafa vakið athygli á afleiðingum og viðbrögðum vegna eineltis sem Selma hefur gengið í gegnum.
Að sögn Særúnar Rósu Ástþórsdóttur verkefnastjóra hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum er ráðstefnan liður í Erasmus verkefni sem nefnist Negative og fjallar um áhrif neikvæðrar líkamsmyndar t.d. á námsframvindu og vellíðan í námi og starfi.
„Við hjá MSS viljum vinna markvisst með skólasamfélaginu að aukinni vellíðan og sterkri sjálfsmynd barna og ungmenna. Markmiðið er að auka vellíðan á skólagöngunni og draga þannig úr brotthvarfi en rannsóknir sýna tengsl á milli neikvæðrar líkamsmyndar og erfiðleika af ýmsum toga. Með ráðstefnunni viljum við vekja athygli á þessu þarfa málefni sem snertir okkur öll en rannsóknir sýna einnig að áhrif samfélagsins geta verið gríðarleg, hvort tveggja jákvæð og neikvæð."
Særún sagði jafnframt mikilvægt að við skoðum hvar við erum stödd þegar kemur að líkamsmynd og virðingu. „Við höfum sem sagt kraftinn til þess að efla og styrkja um leið og við getum haft skaðleg áhrif með okkar eigin viðhorfum eða þrýstingi um æskilegt útlit eða líkamsgerð."
Ráðstefnan verður með gagnvirku sniði þannig að þátttakendur geta lagt sitt af mörkum í umræðu og jafnvel skoðað sína eigin líkamsmynd.
Skráning fer fram á vef Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum og er aðgangur ókeypis.
Hér má sjá dagskrá ráðstefnunarinnar.