Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ráðist verði í endurbyggingu á Garðvangi
Föstudagur 24. apríl 2015 kl. 11:05

Ráðist verði í endurbyggingu á Garðvangi

– Skortur á hjúkrunarrýmum og 55 á biðlista

Á Suðurnesjum eru 55 einstaklingar á biðlista eftir plássi á hjúkrunarheimili. Miðað við fólksfjölda er þetta hlutfall hvergi hærra á öllu landinu. Nýtt glæsilegt hjúkrunarheimili var tekið í notkun á Nesvöllum á síðasta ári, en við þá breytingu var Garðvangi í Garði lokað.

Hjúkrunarrýmum á svæðinu fjölgaði því tiltölulega lítið við þessa breytingu. Sveitarfélögin Garður, Reykjanesbær, Sandgerði og Vogar ráku áður bæði Hlévang og Garðvang. Samningur var gerður við Hrafnistu um að taka að sér rekstur á Nesvöllum og Hlévangi, sveitarfélögin sjá því ekki lengur um þennan rekstur.

Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, greinir frá því í vikulegu fréttabréfi sínu í Vogum að samstarfsvettvangur sveitarfélaganna, DS, hélt aðalfund nú í vikunni. Á fundinum var því beint til aðildarsveitarfélaganna að beita sér sameiginlega að fjölgun hjúkrunarrýma á svæðinu, þar sem m.a. yrði kannað með að ráðast í endurbyggingu á Garðvangi og hefja starfrækslu á hjúkrunarheimili þar.

Húsnæði Garðvangs hefur staðið autt frá því Nesvellir voru teknir í notkun. Ljóst er að ef þar verður starfrækt hjúkrunarheimili að nýju þarfnast húsnæðið gagngerra endurbóta til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til slíkra heimila af hálfu yfirvalda. Tillagan fer nú til umfjöllunar hjá sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaganna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024