Ráðhúsin í Garði og Sandgerði opin til 18:00 í dag
Ráðhúsin í Sandgerði og Garði verða opin til 18:00 í dag svo íbúar geti tekið þátt í skoðunarkönnun um nafn á sveitarfélagið.
Á morgun, laugardag, færist könnunin yfir í Grunnskólann í Sandgerði og í Gerðaskóla milli kl. 10:00 og 20:00. Íbúar taka þátt í því hverfi þar sem þeir búa, Sandgerðingar í ráðhúsinu í Sandgerði eða Grunnskólanum í Sandgerði og Garðmenn í ráðhúsinu í Garði eða í Gerðaskóla. Allir íbúar með lögheimili í sveitarfélaginu fyrir 26. október sem eru fæddir árið 2002 eða fyrr geta tekið þátt.
Boðið verður upp á kaffiveitingar frá 10:00-17:00 í grunnskólunum á morgun, laugardag.
Könnunin er ekki kosning í skilningi laga um kosningar. Bæjarstjórn hefur hins vegar ákveðið að niðurstöður könnunarinnar séu bindandi ef þátttaka verður meiri en 50% og einhver tillaga fær meira en 50% atkvæða.