Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ráðhúsið stórt en fermetrarnir nýtast illa
Kjartan Már í sal bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.
Fimmtudagur 27. september 2018 kl. 09:30

Ráðhúsið stórt en fermetrarnir nýtast illa

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að farið verði í þarfagreiningu fyrir ráðhús Reykjanesbæjar við Tjarnargötu í Keflavík og að ASK arkitektar verði fengnir í verkið.

Ráðhúsið er stór bygging en hún nýtist illa. Fram kom á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í síðustu viku að þrátt fyrir að alls séu um 45 fermetrar á hvern starfsmann í húsinu þá segi það ekki alla söguna. Þar séu reiknaðir inn allir gangar og geymslur og allt það rými sem fer undir bókasafn Reykjanesbæjar, sem sé í húsinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á fundinum var t.a.m. greint frá því að það rými sem bæjarstjórn fundar í hálfsmánaðarlega í risi ráðhússins sé illa nýtt og í samtali við Víkurfréttir sagði Kjartan Már Kjartansson að ef það ætti að nýta risið undir skrifstofur þá þyrfti að ráðast í talsverðar breytingar því risið væri gluggalaust.

Skrifstofur í ráðhúsinu eru þéttsetnar. Hver skrifstofa er notuð af tveimur og upp í sex starfsmönnum. Sveitarfélagið er ört stækkandi og það kallar á fleira starfsfólk í ráðhúsinu en eins og staðan er í dag er erfitt að koma fyrir fleiri starfsmönnum.

Einn möguleiki í stöðunni er að flytja bókasafnið annað en það hugnast mönnum ekki vel, enda hefur sú starfsemi lukkast vel eins og hún er í dag í samneyti við kaffihúsið. Þá er möguleiki að fara í opin rými og brjóta niður veggi.

Kjartan Már segir að mönnum hugnist ekki að dreifa starfsemi ráðhússins á marga staði í bæjarfélaginu. Þá megi gera ráð fyrir að sá möguleiki verði skoðaður að selja ráðhúsið við Tjarnargötu og flytja starfsemina í hentugra húsnæði í bæjarfélaginu. ASK arkitektar munu skoða alla möguleika í þarfagreiningunni fyrir bæjarfélagið.