Ráðherra vill stíga varlega í opnun sjálfstætt starfandi heilsugæslu
Heilbrigðisráðherra telur að mikilvægasta verkefnið í eflingu og styrkingu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sé bygging nýrrar heilsugæslu á Suðurnesjum sem ákveðið hefur verið að gera. Þetta kemur fram í svari hennar við fyrirspurn Vilhjálms Árnasonar, þingmanns, á Alþingi um hvort ekki sé rétt að gera samstarfssamninga við sjálfstætt starfandi heilsugæslu til að flýta opnun nýrrar heilsugæslu á Suðurnesjum.
Vilhjálmur bendir á í fyrirspurn sinni að innleiðingarferli á sjálfstætt starfandi heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu hafi gengið vel og hvort ekki standi til að gera það til dæmis á Suðurnesjum og á Akureyri.
Svandís Svavarsdóttir segir í svari sínu að á meðan verið sé í uppbyggingarfasa fyrir heilsugæsluna og hlutverk hennar sé aukið þurfi að stíga varlega til jarðar er varðar aðra rekstraraðila. „Við þurfum að meta þörfina í hvert skipti. Við þurfum líka að meta þá áhættu sem felst í því að vera með fleiri en eitt kerfi í gangi þegar mönnunaráskoranirnar eru eins miklar og raun ber vitni. Fjárfestingarátakið sem stendur yfir núna gerir ráð fyrir því að við byggjum aðra heilsugæslustöð á starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Sú stofnun þarf á stuðningi að halda að því er varðar húsakost, mönnun, fjármögnun o.s.frv. Og á meðan við erum í því verkefni, þ.e. að efla og styrkja Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með ráðum og dáð á eins fjölbreyttan hátt og nokkurs er kostur, tel ég að það sé mikilvægasta verkefnið okkar.“
Vilhjálmur benti á að það væri augljóst að t.d. á Suðurnesjum hafi mönnunarvandi lengi verið til staðar þó að engin sjálfstætt starfandi heilsugæsla sé þar. „Það hefur vissulega verið gert ráð fyrir uppbyggingu nýrrar heilsugæslustöðvar á Suðurnesjum en það tekur töluverðan tíma að byggja hana upp og manna. Núverandi heilsugæslu, sem rekin er af hinu opinbera, tekst ekki að manna. Við sjáum að á höfuðborgarsvæðinu tókst að manna stöðvarnar og svara eftirspurn með því að fjölga sjálfstætt starfandi. Nú hefur öll bæjarstjórn Reykjanesbæjar sammælst um að hún geti ekki beðið á meðan verið er að byggja þá heilsugæslu sem gert hefur verið ráð fyrir í fjárlögum og í fjármálaáætlun. Því held ég að fljótvirkasta lausnin til að sinna heilsugæslunni og byggja hana hratt og örugglega upp, og manna hana, sem er stór áskorun á Suðurnesjum, sé að gera samstarfssamning við sjálfstætt starfandi og hafa þá fjölbreytt rekstrarform á Suðurnesjum,“ sagði Vilhjálmur.
Vitað er að aðilar í Reykjanesbæ hafa unnið að því undanfarna mánuði að opna einkarekna heilsugæslu. Þá fjallar Guðbrandur Einarsson, forseti Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, um málið í grein á bls. 20 í Víkurfrétta.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður spurðist fyrir um einkarekna heilsugæslu á Suðurnesjum.