Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ráðherra um söluna á ríkishlut í HS: Of flókið að bjóða almenningi að kaupa hlut
Mánudagur 26. mars 2007 kl. 17:49

Ráðherra um söluna á ríkishlut í HS: Of flókið að bjóða almenningi að kaupa hlut

Stefnt er að því að ljúka söluferli á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja fyrir lok apríl, en opið er fyrir tilboð í hlutinn til 2. apríl n.k.
Í auglýsingu um söluna kemur fram að hluturinn, sem er rúm 15% í fyrirtækinu, verður einungis seldur einum aðila sem þarf að sýna fram á fjárhagslegan styrkleika og er orkufyrirtækjum í opinberri eigu og dótturfyrirtækjum þeirra óheimilt að klaupa hlutinn.
Nokkur umræða hefur verið um það hvort almenningur á Suðurnesjum hefði ekki átt að fá að kaupa í fyrirtækinu. Í óvísindalegri könnun á vefsíðu Víkurfrétta kemur fram að 88% svarenda finnst að svo ætti að vera og gaf það tilefni til að Víkurfréttir höfðu sambandi við Árna Mathiesen fjármálaráðherra og spurðu hann út í söluferlið.

1. Auglýsingin um sölu á hlut ríkis í HS kveður á um að hluturinn verði seldur í einu lagi til eins aðila, Því er það svo? Væru miklir ókostir við að bjóða fleirum að kaupa, jafnvel almennum einstaklingum?
-Vegna forkaupsréttarákvæða Hitaveitunnar og annarra eigenda væri mjög flókið og erfitt í framkvæmd að bjóða hlut ríkisins í HS til almennings. Því var farin sú leið að bjóða hlutinn í einu lagi til eins aðila.

2. Hefur komandi söluhagnaður verið eyrnamerktur einhverju sérstöku verkefni, svipað og var gert með símasöluna um árið?
-Nei það hefur ekki verið gert enda hefur fyrirtækið ekki verið selt ennþá.

3. Stendur til að selja hlut ríkisins, allan eða að hluta, í öðrum orkufyrirtækjum? Ef ekki, því er hluturinn í HS seldur?
-Verið er að einfalda umhverfi fyrirtækja í raforkuframleiðslu og raforkusölu. Ríkið er nú eini eigandi að Landsvirkjun og munu önnur raforkufyrirtæki sem að öllu leyti voru í eigu ríkisins heyra undir það fyrirtæki. Ríkið á ekki eignarhluta í öðrum orkufyrirtækjum en HS og því er ekki um það að ræða að selja aðra hluti.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024