Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Ráðherra ekki enn skilað hagkvæmniathugun vegna flutnings Gæslunnar
Fimmtudagur 17. mars 2011 kl. 14:24

Ráðherra ekki enn skilað hagkvæmniathugun vegna flutnings Gæslunnar

- flutningur landhelgisgæslunnar óráðinn

Innanríkisráðherra hefur ekki skilað af sér athugun á hagkvæmni þess að flytja landhelgisgæsluna á Suðurnes, en honum var falið að ljúka úttekt á málinu fyrir 1. febrúar sl. Segist hann vonast eftir niðurstöðum á næstu dögum. Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði ekki nema von að málið hefði ekki legið fyrir 1. febrúar, þar sem vinna við það hefði ekki verið hafin þá. Minnti hún ráðherra einnig á að ábyrgð á athuguninni lægi hjá honum en ekki embættismönnum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ragnheiður Elín Árnadóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, spurði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á alþingi í morgun um niðurstöðu hagkvæmniathugunar á flutningi landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Ríkisstjórnin fól innanríkisráðherra 9. nóvember sl. að framkvæma athugunina, sem átti að liggja fyrir 1. febrúar, en var frestað til 15. mars.

Sagði Ragnheiður Elín þetta mál tengjast því að Varnarmálastofnun hefði verið lögð niður, óvissu starfsmanna hennar um framtíð sína og hvar ríkisstjórnin hygðist koma fyrir þeim verkefnum sem stofnunin sinnti áður. Ekki síst þyrfti að eyða óvissu um framtíðarfyrirkomulag öryggismála þjóðarinnar.

Hagkvæmniathugun enn hjá embættismönnum

Hvað fyrirspurn Ragnheiðar Elínar um hagkvæmniathugun á flutningi LHG á Suðurnesin varðaði, sagði hann það rétt að stefnt hefði verið að því að niðurstaðan lægi fyrir í upphafi febrúar. Hún lægi ekki fyrir enn, en væri væntanleg á næstu dögum. Sagðist innanríkisráðherra hafa falið embættismönnum í innanríkisráðuneytinu að kanna málið og fá utanaðkomandi til aðstoðar og ítrekaði að hann vonaðist til að þeir skiluðu af sér á næstu dögum.

Standa á við fyrirheit gagnvart starfsfólki

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði að staðið yrði við öll fyrirheit sem starfsfólki hefðu verið gefin. Sagðist hann hafa átt fund með forstjórum landhelgisgæslunnar og Isavia og orðið að samkomulagi að þeir skoðuðu málin og gerðu tillögu um framtíðarfyrirkomulag. Hafi hann fengið bréf fyrir fáeinum dögum frá forstjórunum, þar sem þeir óskuðu eftir fresti á málinu til að skoða það nánar. Sagði Ögmundur að þar hefðu þeir fullvissað hann um að hag starfsmannanna væri borgið.

Ráðherra falið að gera athugunina

Ragnheiður Elín sagði ríkisstjórnina hafa þá stefnu á tyllidögum að setja Suðurnesin í forgang. Hún minnti Ögmund Jónasson á að ríkisstjórnin hefði falið honum sem ráðherra að gera þessa hagkvæmniathugun og það hefði ekki verið nema von að henni hefði ekki verið lokið 1. febrúar, þar sem hún hefði ekki verið hafin þá.

„ Hér kom hæstvirtur ráðherra, sem augljóslega veit ekkert hvar þetta mál er statt,“ sagði Ragnheiður Elín, „og segir að þetta liggi allt saman fyrir fljótlega. Þetta er ekki hægt. Núna þarf þessi ríkisstjórn að fara að taka ákvarðanir. Besta ákvörðunin væri náttúrlega sú að segja sig frá völdum og kjósa í þessu landi.“