Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Ráðast í átak gegn misnotkun á félagslegri aðstoð
Fimmtudagur 13. desember 2012 kl. 07:15

Ráðast í átak gegn misnotkun á félagslegri aðstoð

Samþykkt var einróma á bæjarstjórnarfundi í Vogum á Vatnsleysuströnd þann 28. nóvember síðastliðinn að ráðast..

Samþykkt var einróma á bæjarstjórnarfundi í Vogum á Vatnsleysuströnd þann 28. nóvember síðastliðinn að ráðast í viðtækt átak gegn misnotkun á félagslegri aðstoð sveitarfélagsins. Þróun útgjalda á vettvangi félagsþjónustu er áhyggjuefni en mikil aukning er í greiðslu húsaleigubóta, fjárhagsaðstoðar, barnaverndarmála o.s.frv.

Inga Sigrún Atladóttir, forseti bæjarstjórnar, segir í samtali við Víkurfréttir að á árinu 2012 hafi fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélaginu verið um 2,7 milljónir króna en samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að þessi upphæð muni fimmfaldast og fara í um 15 milljónir króna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Lítil sveitarfélög eru varnarlaus gagnvart t.d. rangri lögheimilisskráningu, rangri skráningu hjúskaparstöðu og skipulögðu bótasvindli,“ segir Inga Sigrún. „Þetta leiðir til þess að útsvarstekjur skila sér ekki. Um leið eru niðurgreiðslur sveitarfélagsins og fjárhagsaðstoð misnotuð. Það er erfitt fyrir jafn lítið sveitarfélag og Voga að búa við svo miklar sveiflur eins og raunin sýnir. Það verður ekki við unað að sveitarfélagið hafi ekki ráð til að bregðast við misnotkun á nauðsynlegri neyðaraðstoð sveitarfélagsins. Mikilvægt er að sporna við svindli með samhentu átaki og taka á því samfélagsmeini sem felst í felst í svartri atvinnustarfsemi, rangri búsetuskráningu, rangri sambúðarskráningu o.s.frv.“

Inga Sigrún segir mikinn samhug innan bæjarstjórnarinnar að taka á þessum málum. Skýringarnar á þessari miklu hækkun í félagslegri aðstoð hjá sveitarfélaginu liggja að stórum hluta í því að margir einstaklingar muni missa rétt á atvinnuleysisbótum á næsta ári og fara því yfir á framfæri sveitarfélaga.

„Það er mikilvægt að taka þetta mál upp á samstarfsvettvangi sveitarfélaganna á Reykjanesi, sem og við lögreglu, skattayfirvöld og hagsstofu. Í litlum sveitarfélögum er auðvelt að komast að því hverjir eru að misnota félagskerfið. Hér þekkja allir alla. Misnotkun getur haf þær afleiðingar að lækka þarf greiðslur til þeirra sem raunverulega þurfa að aðstoðinni að halda og það væri miður,“ segir Inga Sigrún.

Bæjarstjórn samþykkti því að fela bæjarstjóra að leita samstarfs við lögreglu og önnur yfirvöld og hafa frumkvæði að öflugu átaki gegn misnotkun félagslegri aðstoð sveitarfélagsins.