Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 13. júlí 2000 kl. 10:37

Rabbabaraveisla

Rabbabara-Rúna hefði eflaust brosað út að eyrum hefði hún rekist á þennan vörubíl í Garðinum. Á pallinum voru um 20 kíló af rabbabara sem átti að fara að henda á haugana þegar Silja Dögg Gunnarsdóttir átti leið þar um. Garðeigendurnir, Jósefína Arnbjörnsdóttir og Magnús Torfason, sögðust vera búin að reyna að koma uppskerunni út, en þar sem enginn vildi hirða herlegheitin, þá færi allt saman í landgræðslu. „Við gerum úr þessu sultu og graut, en þetta er bara svo mikið. Ég reyndi að koma þessu út í fyrra, en það gekk ekki“, segir Jósefína og dæsir. Magnús segist hafa komið með rabbabarann að norðan fyrir um 20 árum síðan og sett hann niður á milli steina í garðinum sínum við Sunnubraut 12. „Fyrsta árið lét ég mikinn skít á hnausana og lét hann liggja á þeim yfir veturinn. Síðan þá höfum við alltaf stungið meðfram á vorin og borið á, en þó ekki á hverju sumri“, segir Magnús. Fyrsta uppskera sumarinsins er góð en Magnús segist ekki eiga von á að önnu uppskera verði eins mikil. Hvert ferð þú með rabbabarann? „Við erum að græða og fylla upp í gryfju, mitt á milli Gerðahrepps og Sandgerðis. Þangað fer öll mold og hey og rabbabarinn er mjög góður áburður“, segir Magnús og skutlar sér upp í vörubílsstjórasætið.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024